Var á lífi en úrskurðaður látinn

AFP

Sænskur karlmaður sem hafði verið úrskurðaður látinn af læknum reyndist vera á lífi þegar nánar var að gáð. Kærasta mannsins heyrði hann anda þegar hún hugðist veita honum sína hinstu kveðju. 

Atvikið kom upp á sjúkrahúsi í Värmland-sýslu í Svíþjóð. Í skýrslu sem rituð var um atvikið fyrir nefnd sem sér um að rannsaka slík mál kveðst kærasta mannsins hafa farið með manninn á bráðamóttöku en ekki er tekið fram í fréttaflutningi af málinu, hvers eðlis vandamál mannsins var. Hann var úrskurðaður látinn um 30 mínútum síðar.

Þegar hún fór inn í herbergi þar sem kærastinn lá sá  hún brjóstkassa mannsins hreyfast. Þegar hún benti hjúkrunarfræðingum á það var henni tjáð að líkaminn væri að losa sig við loft úr líkamanum. Ekki væri um öndun að ræða.

En hún þráaðist við og þegar hjúkrunarfræðingar veittu manninum nánari athygli kom í ljós að maðurinn andaði í raun og veru. Upphófust tilraunir til að koma manninum til meðvitundar.

Maðurinn reyndist hafa tekið lyf sem nefnist Lyrica og sem er kvíðalyf sem gerir það meðal annars að verkum að augasteinar víkka út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert