Berlusconi hyllir Mussolini

Enn vekur Berlusconi hneykslun heimsbyggðarinnar.
Enn vekur Berlusconi hneykslun heimsbyggðarinnar. GIUSEPPE CACACE

Silvio Berlusconi finnur sífellt nýjar leiðir til að vekja hneykslun en nýleg ummæli forsætisráðherrans fyrrverandi hafa vakið mikla reiði í heimalandi hans og víða um heim. 

Lét Berlusconi þau orð falla á minningarathöfn um helförina sem fram fór í Mílanó í dag, að einræðisherrann Benito Mussolini hafi „unnið ýmis afrek“ í stjórnartíð sinni í því skyni að bæta fyrir „verstu mistök sín“, gyðingaofsóknir og að hafa heimilað flutning á mörg þúsund gyðingum til Auschwitz

„Kynþáttalöggjöfin voru verstu mistök leiðtogans Mussolinis, sem vann engu að síður mikil afrek á mörgum öðrum sviðum,“ sagði Berlusconi sem hefur uppi áform um endurkomu í stjórnmál. Talið er víst að hann muni bjóða sig fram í næstu þingkosningum á Ítalíu, sem fram fara í næsta mánuði.

„Ítalía hefur ekki sömu skyldum að gegna og Þýskaland,“ bætti Berlusconi við og vísaði með því til ummæla Angelu Merkel fyrr í vikunni þegar hún sagði að Þýskaland „gegndi eilífu ábyrgðarhlutverki vegna voðaverka nasista.“

Skrípamynd af Mussolini

Ummæli Berlusconis hafa ekki síst vakið reiði meðal stjórnmálamanna á vinstri vængnum á Ítalíu. „Orð Berlusconis eru svívirða og móðgun við söguna og minningu um fórnarlömb helfararinnar. Hann skuldar ítölsku þjóðinni afsökunarbeiðni,“ sagði Dario Francheschini, formaður lýðræðisflokksins á Ítalíu. Skoðanakannanir fyrir þingkosningarnar sýna að Francheschini nýtur mest fylgis allra þingmanna þar í landi.

„Það er einfaldlega ógeðslegt að á minningardegi um helförina skuli Berlusconi leyfa sér að leggja til endurreisn stjórnarhátta Mussolinis, einræðisherrans sem dró Ítalíu í seinni heimsstyrjöldina,“ sagði þingkonan Debora Serracchiani í yfirlýsingu. 

„Berlusconi ber sem eigandi fjölmiðlaveldis og fyrrum stjórnmálamaður gríðarlega ábyrgð, bæði siðferðis- og málefnalega, sem hann bregst ítrekað,“ bætti Serracchiani við. 

Antonio Di Petro, formaður flokks sem berst gegn spillingu á Ítalíu sagði að Berlusconi væri „sjálfur ekkert annað en skrípamynd af Mussolini“.

Ljóst er að ummælin bætast í umfangsmikið safn hneykslismála í fortíð Berlusconis, en hann gegndi embætti forsætisráðherra í þrjú kjörtímabil. Hann er formaður Frelsisflokksins og er eins og áður segir búist við að hann muni gefa kost á sér í næstu kosningum. Ekki er þó vitað hvort hann muni falast eftir forsætisráðherrastólnum á ný eða þiggja stöðu í ráðuneyti, fari svo að flokkur hans sigri.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert