Játaði morð á tvíburunum sínum

mbl.is

Svissneskur dómstóll hefur dæmt móður í lífstíðarfangelsi en hún hafði játað að hafa kæft sjö ára tvíbura sína með kodda. Þá drap hún einnig þriðja barn sitt. Konan hefur neitað sök árum saman.

Konan er 39 ára gömul og svissneskur ríkisborgari. Tvíburarnir voru drengur og stúlka og þriðja barnið sem hún myrti var drengur.

Fangar sem fá lífstíðarfangelsisdóm í Sviss eru yfirleitt í um 15 ár á bak við lás og slá. Konan fær meðferð hjá geðlæknum á meðan hún afplánar dóm sinn.

Konan er kölluð Bianca B. í svissneskum fjölmiðlum og hefur árum saman neitað því að bera ábyrgð á dauða barna sinna en tvíburarnir létust árið 2007. Í síðasta mánuði játaði hún hins vegar á sig morðin.

Hún játaði að hafa kæft tvíburana og einnig að hafa drepið sjö mánaða gamlan son sinn árið 1999.

„Ég vildi að hann yrði hljóður í smá-stund,“ sagði móðirin við réttarhöldin.

 Bianca B. var dæmd í lífstíðarfangelsi árið 2010 fyrir morðin á tvíburunum, þrátt fyrir að halda þá fram sakleysi sínu. Hún fékk málið hins vegar endurupptekið þar sem dómstóll hafði komist að því að vörn hennar hefði á sínum tíma verið ábótavant.

 Konan hefur því verið í fangelsi frá árinu 2007. Munu því fimm ár dragast frá lífstíðardómi hennar nú.

Við réttarhöldin sem hófust 12. desember lýsti Bianca B. því í smáatriðum hvernig hún fór inn í herbergi sonar síns 23. desember 2007, eftir að hafa lagt gjafir barnanna undir jólatréð. Hún hafi svo óvænt, án þess að hugsa, tekið upp kodda og þrýst honum að andliti barnsins þar til það hætti að hreyfa sig.

Í kjölfarið hafi hún svo farið inn í herbergi dóttur sinar og gert það sama við hana.

„Ég vildi ekki gera þetta,“ sagði hún í réttarsalnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert