Sjö ára yfirheyrður í tíu tíma

Frétt The New York Post.
Frétt The New York Post. www.nypost.com

Sjö ára drengur í New York var handtekinn í byrjun desember í fyrra er hann sat í skólastofu, handjárnaður og farið var með hann í tíu tíma yfirheyrslu þar sem honum var gefið að sök að hafa tekið fimm dollara ófrjálsri hendi frá jafnaldra sínum. Fjölskylda drengsins hefur nú kært borgaryfirvöld og lögreglu og krefst 250 milljón dollara bóta.

„Sonur minn hrópaði; Mamma, mamma. Það var ekki ég,“ segir móðir drengsins, Frances Mendez, í samtali við The New York Post. „Ímyndið ykkur hvernig það er að sjá barnið sitt í handjárnum. Þetta var hræðilegt, ég trúði ekki mínum eigin augum.“

Fimm dollara seðill hafði fallið úr vasa barns. Drengurinn, Wilson Reyes stóð nálægt ásamt tveimur öðrum drengjum og tók annar þeirra seðilinn upp. Reyes var sakaður um að hafa tekið peninginn og þá var lögregla kölluð á vettvang.

Fyrst var drengnum haldið í herbergi í skólanum í fjóra tíma en síðan var farið með hann á lögreglustöð þar sem honum var haldið í sex klukkustundir til viðbótar. 

Í ákærunni segir að honum hafi verið misþyrmt bæði andlega og líkamlega, hann niðurlægður og gert lítið úr honum. Þegar móðir hans kom á lögreglustöðina og vildi hitta son sinn var henni sagt að það væri ekki hægt að koma því við. Að lokum fékk hún að hitta hann og þá var önnur hönd hans handjárnuð við vegg.

Talsmaður lögreglu segir ekki rétt greint frá málavöxtum. Til dæmis hafi drengurinn alls ekki verið svona lengi í vörslu lögreglu. En hann hafi fengið meðferð eins og önnur ungmenni sem grunuð séu um glæp. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert