Vilja refsa Norðmönnum vegna EES

Norden.org

Evrópusambandið er ósátt við frammistöðu Norðmanna innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), bæði hvað varðar innleiðingu á lagagerðum frá sambandinu og vegna tolla sem norsk yfirvöld hafa sett á vörur frá ríkjum þess. Þetta kemur fram á fréttavefnum Euractiv.com í dag og vísað í uppkast að skýrslu sem unnið er að fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og birta á síðar á þessu ári.

Fram kemur í fréttinni að Norðmenn hafi ekki innleitt yfir 400 tilskipanir frá Evrópusambandinu sem falla undir EES-samninginn sem Ísland er einnig aðili að. Þá er Noregur gagnrýndur fyrir að hafa hreinlega hafnað ýmsum tilskipunum frá sambandinu eins og til að mynda um að komið verði á samkeppni í póstdreifingu.

Haft er eftir danska Evrópuþingmanninum Bendt Bendtsen að Norðmenn sýni eigingirni með þessari hegðun sinni. Þeir vilji aðeins njóta þess góða af samstarfi við önnur Evrópuríki. Þá segir í fréttinni að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi staðfest að vaxandi óánægja sé með það innan sambandsins hvernig Norðmenn haldi á málum.

Maja Kocijancic, talsmaður Catherine Ashton utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, segir að verið sé að kanna með hvaða hætti sé hægt að refsa Norðmönnum innan ramma EES-samningsins. Bendtsen segir að rétta leiðin í þeim efnum sé að koma höggi á norskan sjávarútveg eða hóta því að reka Norðmenn úr EES-samstarfinu.

Vitnað er í Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sem segir samskiptin við Evrópusambandið vera í góðum farvegi og að það sé ekkert nýtt að ágreiningur sé um einstakar tilskipanir frá sambandinu. Erna Solberg, formaður norska Hægriflokksins, gagnrýnir hins vegar norsk stjórnvöld og segir þau ekki skilja þær gagnkvæmu skyldur sem leiði af EES-samningnum.

Þá segir hún að Norðmenn reki ekki nógu virka stefnu gagnvart Evrópusambandinu og séu ennfremur ekki að nýta öll þau tækifæri sem þeir hafi til þess að hafa áhrif á þá lagasetningu sem komi frá sambandinu í gegnum EES-samninginn.

Frétt Euractiv.com

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert