Sýrlensk stjórnvöld hótuðu því í dag að hefna sín á Ísraelsmönnum vegna loftárása þeirra skammt frá Damaskus, höfuðborg Sýrlands í gær. Sumir bandamenn Sýrlandsstjórnar fordæma árásina sem þeir segja að geti leitt til þess að ástandið í landinu breiðist út fyrir landamærin. Auk Ísraelsmanna séu „þjóðirnar sem vernda þá“ ábyrgir fyrir árásinni.
Margt þykir á huldu varðandi árásirnar, sem ekki hafa fengist staðfestar.
Ísraelsstjórn hefur ekki svarað þessum ásökunum, en hefur undanfarið viðrað áhyggjur sínar af því að sýrlensk efnavopn komist í hendur Hezbollah-samtakanna í Líbanon.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir málið alvarlegt og hvetur málsaðila til að koma í veg fyrir að spenna magnist enn frekar í þessum heimshluta og að fylgja alþjóðlegum samþykktum.
Sendiherra Sýrlands í Líbanon, Ali Abdel Karim Ali, lagði áherslu á það við AFP-fréttastofuna að Sýrlendingar væru í fullum rétti til að verjast „árásargirni Síonista“. „Ísraelsmenn ásamt þeim þjóðum sem styðja þá; Bandaríkjamenn, Arabaríki og ýmsir aðrir, verða að gera sér grein fyrir því að Sýrlendingar munu verja fullveldi sitt og land og gætu ákveðið að bregðast við þessari árás,“ segir Ali.
Íranar eru einir dyggustu bandamenn Sýrlendinga og hafa tilkynnt að ef Ísraelsmenn réðust á Sýrland, þá jafngilti það árás á Íran. Aðstoðarutanríkisráðherra Írans segir að árásin muni hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Ísrael.
Rússar, aðrir helstu bandamenn Sýrlendinga, segjast enn ekki hafa fengið árásina staðfesta.
Frétt mbl.is: Sýrland kvartar til Sameinuðu þjóðanna