Evrópusambandið ætti að koma sér upp löggjöf sem gerir ríkjum mögulegt að hætta þátttöku meðal annars í evrusvæðinu og Schengen-samstarfinu að því er segir í samþykkt ríkisstjórnar Hollands. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra landsins, Mark Rutte og Jeroen Dijsselbloem, upplýstu um þetta í gær í bréfi til hollenska þingsins.
„Þetta kallar á breytingar á sattmálum Evrópusambandsins í tilfelli evrusvæðisins og Schengen-samstarfsins þar sem núverandi sáttmálar gera ekki ráð fyrir þessum möguleika,“ segir í lok bréfsins.
Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að bréfið komið í kjölfar ummæla Rutte á Alþjóðaefnahagsþinginu í Davos fyrr í þessum mánuði þar sem hann sagði að það ætti að vera mögulegt fyrir ríki að yfirgefa evrusvæðið og gaf ennfremur í skyn að einnig ætti að vera hægt að endurheimta vald yfir ákveðnum málum frá Evrópusambandinu.
Ummælin lét Rutte falla aðeins nokkrum dögum efir að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, boðaði viðræður við Evrópusambandið þar sem farið yrði fram á það að endursemja um veru Breta í sambandinu.