Reyndu að brjótast inn í höllina

Frá mótmælum við forsetahöllina í Kaíró í Egyptalandi í kvöld.
Frá mótmælum við forsetahöllina í Kaíró í Egyptalandi í kvöld. AFP

Mótmælendur og öryggissveitir tókust á við forsetahöllina í Kaíró í kvöld. Þúsundir fylktu liði  um götur borgarinnar og kröfðust þess að forseti landsins, Mohamed Morsi, segði af sér. Hann hét því að „afgerandi“ aðgerðum yrði beitt gegn þeim mótmælendum sem beittu ofbeldi.

Hann hyggst ennfremur sækja þá til saka sem hafa kynt undir óeirðunum. Mótmælt var í nokkrum öðrum borgum landsins í dag, en ekki fer sögum af óeirðum þar.

Fólkið kastaði bensínsprengjum og steinum yfir hallarmúrana og reyndi að brjótast inn í höllina. Lögregla brást við með því að beita táragasi og slösuðust fimm lögreglumenn í átökunum. 

Hvetja til stillingar

Mótmælin eru skipulögð af samtökunum „Hjálpræði þjóðarinnar“, NSF. Þau hvöttu mótmælendur til að sýna stillingu og segjast ekki bera ábyrgð á ofbeldinu. Einn grímuklæddur mótmælandi sagði við AFP-fréttastofuna að fjölmargir væru ósáttir bæði við NSF og stjórnvöld.

Leiðtogi NSF, Nóbelsverðlaunahafinn Mohamed ElBaradei, segir að mótmælin muni halda áfram svo lengi sem Mubarak hunsi mótmælendur.

„Ofbeldi og ringulreið mun halda áfram uns Morsi og félagar hans hlusta á kröfur fólksins; ný ríkisstjórn, lýðræðisleg stjórnarskrá og sjálfstæðir dómstólar,“ skrifaði ElBaradei á Twitter-síðu sína í dag.

Egypsk yfirvöld segja að a.m.k. tíu hafi slasast í mótmælunum í dag. Í síðustu viku létu 56 lífið í mótmælum víða um landið, flestir í borginni Port Said.

Þúsundir mótmæltu í Kaíró í Egyptalandi í dag.
Þúsundir mótmæltu í Kaíró í Egyptalandi í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert