Frakkar sprengja í Norður-Malí

Brunnið bílhræ eftir loftárás Frakka í norðurhluta Malí.
Brunnið bílhræ eftir loftárás Frakka í norðurhluta Malí. AFP

Frakkar standa nú fyrir loftárásum í norðurhluta Malí, við bæinn Kidal, með því markmiði að brjóta uppreisn íslamista endanlega á bak aftur. Aðgerðir Frakka í Malí hafa nú staðið í þrjár vikur.

Alls voru 30 herflugvélar sendar til að gera loftárásir á þjálfunarbúðir og samskiptamiðstöðvar íslamista í Tessalit, fjallendi nærri landamærum Alsír. Francois Hollande forseti Frakklands hefur að sögn BBC heitið því að frakkar aðstoði við uppbyggingu Malí þegar sigur yfir uppreisnarmönnunum er í höfn.

Talið er að nokkrir franskir ríkisborgarar séu í gíslingu skæruliða sem gerir ástandið enn viðkvæmara að sögn BBC. Þá er óttast að skæruliðar kunni að safna liði og skipuleggja sig að nýju í fjöllunum nærri bænum Kidal.

Franskar hersveitir náðu flugvellinum í Kidal á sitt vald á miðvikudag en skæruliðarnir, sem vilja kljúfa sig frá Malí og stofna sitt eigið ríki í norðrinu, hafa bæinn sjálfan enn undir sínum yfirráðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert