Hezbollah kennt um rútusprengju í Búlgaríu

Hryðjuverksins við flugvöllinn í Burgas í Búlgaríu minnst.
Hryðjuverksins við flugvöllinn í Burgas í Búlgaríu minnst. mbl.is/afp

Bílsprengja sem varð fimm Ísraelum og ökumanni þeirra að bana í borginni Burgas í Búlgaríu í júlí í fyrrasumar var verk hermdarverkaamtakanna Hezbollah í Líbanon, að sögn lögreglu og embættismanna í höfuðborginni Sofia.

Að sögn lögreglu beið tilræðismaðurinn bana á staðnum. Hann er sagður hafa átt sér vitorðsmann en báðir hafi þeir tilheyrt Hezbollahsellu. Hafi þeir brúkað kanadísk og áströlsk vegabréf.

Ísraelar halda því og fram að yfirvöld í Íran hafi lagt tilræðinu lið en auk Ísraelanna sem biðu bana slösuðust um 30 manns við sprenginguna. Stjórnvöld í Teheran vísa allri ábyrgð af sér en af hálfu Hezbollah hefur ekki verið brugðist við niðurstöðu lögreglunnar í Búlgaríu.

Er hann skýrði frá niðurstöðunum í Sofia í dag sagði Tsvetan Tsvetanov innanríkisráðherra, að handhafar áströlsku- og kanadísku vegabréfanna hafi haft bein tengsl við Hezbollah. Þeir hafi verið liðsmenn vígasveita samtakanna og þegið fjárgreiðslur frá þeim. Mennirnir höfðu búið í Líbanon, annar frá 2006 og hinn frá 2010.

Í upphafi rannsóknar var talið að um sjálfsvígstilræði hafi verið að ræða, þar sem meðal annars fannst höfuð tilræðismannsins á vettvangi. Í millitíðinni er lögreglan frekar á því að annað hvort hafi verið um fjarstýrða sprengingu að ræða eða sprengjan hafi fyrir mistök verið sprengd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert