Kvenhermenn tilbúnir í slaginn

Sú ákvörðun bandarískra stjórnvalda að leyfa konum í hernum formlega að starfa á víglínunni markar tímamót í áratuga baráttu kvenhermanna. Frá árinu 2003 hafa yfir 150 bandarískar konur fallið í bardögum í Írak og Afganistan.

Lisa Jones er uppgjafarhermaður og á að baki 26 ára feril með Bandaríkjaher. Hún starfaði m.a. í Afganistan og bar titilinn ráðgjafi, en þótt hún hafi aldrei formlega talist vera á víglínunni var hún 7 sinnum í bílalest sem varð fyrir skotárás.

„Þetta er löngu tímabært. Það er ánægjulegt að vita að við fáu fái nú viðurkenningu fyrir störfin sem þær vinna í hernum," segir Jones. 

Í Virginiu er að finna US Army Women's Museum og að sögn forstöðukonu safnsins er markmiðið að kynna fyrir almenningi þær miklu fórnir sem konur hafa fært í hernum undanfarin 10 ár. Frá árinu 2003 hafa yfir 150 kvenhermenn fallið í Írak og Afganistan og konur eru nú um 15% bandarískra hermanna.

Það er mikil breyting frá 9. áratugnum, þegar Patricia Siegel vann sem ráðgjafi hershöfðingja í West Point herstöðinni og leiðbeindi þeim um hvernig opna mætti herinn fyrir konum. Hún segir að ákvörðun Pentagon um að hleypa konum á víglínuna muni aðeins virka til fulls ef æðstu yfirmenn hersins styðja hana. 

Bandaríkjaher hefur frest til ársins 2016 til að ákveða hvaða stöður, ef einhverjar, verði áfram lokaðar konum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert