Vilja ekki gengisstefnu fyrir evruna

François Hollande, forseti Frakklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á …
François Hollande, forseti Frakklands, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, á góðri stund. AFP

„Við erum sann­færð um að gengi gjald­miðla end­ur­spegli stöðu efna­hags­mála, einkum þau sem eru sveigj­an­leg. Við erum reiðubú­in að taka upp viðræður við Frakk­land um málið en þýsk stjórn­völd eru ekki þeirr­ar skoðunar að geng­is­stefna sé heppi­leg leið til þess að stuðla að auk­inni sam­keppn­is­hæfni.“ Þetta er haft eft­ir Stef­fen Sei­bert, tals­manni rík­is­stjórn­ar Þýska­lands, á frétta­vefn­um Eu­obser­ver.com í dag.

Franço­is Hollande, for­seti Frakk­lands, sagði í ræðu sem hann flutti í Evr­ópuþing­inu í Stras­bourg í gær og á blaðamanna­fundi í kjöl­farið að hátt gengi evr­unn­ar ógnaði efna­hags­leg­um hags­mun­um Evr­ópu­sam­bands­ins og til­raun­um ríkja eins og Frakk­lands til þess að auka sam­keppn­is­hæfni sína. Þá kallaði hann eft­ir alþjóðleg­um aðgerðum til þess að koma í veg fyr­ir að höfð væru óeðli­leg áhrif á þróun geng­is gjald­miðla.

„Mynt­banda­lag verður að búa yfir geng­is­stefnu. Sé svo ekki stýrist það af gengi sem end­ur­spegl­ar ekki raun­veru­lega stöðu efna­hags­lífs­ins,“ sagði Hollande og enn­frem­ur að Evr­ópu­sam­bandið skildi evr­una eft­ir varn­ar­lausa gagn­vart órök­rétt­um geng­is­sveifl­um. „Við verðum að grípa til aðgerða á alþjóðleg­um vett­vangi til þess að vernda hags­muni okk­ar.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka