Fundu 100% hrossakjöt í lasagne

Í sumum tegundum af lasagne fannst 100% hrossakjöt. Myndin er …
Í sumum tegundum af lasagne fannst 100% hrossakjöt. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki.

Bresk stjórnvöld vöruðu almenning á Bretlandi í dag við því að borða nautalasagne sem selt væri undir vörumerkinu Findus og framleitt í Frakklandi. Í ljós kom þegar varan var rannsökuð að í henni væri 100% hrossakjöt.

Findus rannsakaði 18 vörumerki af lasagne sem er dreift af heildsalanum Comigel í Frakklandi. Í 11 máltíðum fundust á bilinu 60% og upp í 100% hrossakjöt, eftir því sem breska matvælastofnunin segir og AFP-fréttaveitan greinir frá.

Vilja rannsaka hvort dýralyf finnist í vörunum

Matvælastofnun Bretlands segir að farið hafi verið fram á að kjötvörurnar verði rannsakaðar með tilliti til lyfjaleifa úr dýralyfinu fenýlbútazón, en kjöt af dýrum sem hafa verið meðhöndluð með því mega ekki koma inn í breska fæðukeðju.

Tóku allt nautalasagne af markaði

„Findus tók allt nautalasagne sem þeir höfðu til sölu af markaði eftir að franski birgirinn Comigel lýsti áhyggjum sínum af því að í því væri hrossakjöt,“ sagði stofnunin í yfirlýsingu.

Stofnunin segir að farið hafi verið fram á lyfjarannsóknir á kjötinu sem liður í rannsókn sem sé í gangi á kjötréttum, en ekki er langt síðan uppgötvaðist að nokkrar verslanir á Bretlandi væru að selja hrossa-borgara.

„Við höfum ekki vísbendingar um að kjötið ógni heilsu manna. Hinsvegar fór matvælastofnunin fram á við Findus að gerðar yrðu prufur á öllu lasagne til að ganga úr skugga um að í því væri ekki að finna fenýlbútazón.“

Lítil stemning fyrir hrossakjötsáti á Bretlandi

Hrossakjötsmenning er misjöfn á milli landa, en á Bretlandi og Írlandi, þar sem hrossakjöt fannst nýlega í borgurum, er lítil hefð fyrir áti á hrossakjöti og það ekki hátt skrifað. Matvælastofnun Írlands uppgötvaði að upp undir 29% af hrossakjöti væri þar í hamborgurum auk þess sem í sumum þeirra fannst svínakjöt.

Hrossakjötsblönduðu borgararnir voru frosnir til sölu í bresku verslununum Iceland og Tesco ásamt írskum útibúum þar í landi, Lidl, Aldi og Dunnes Stores.

Þó íbúar Bretlandseyja og Írlands kunni illa að meta hrossakjötið þá er töluverð menning fyrir slíku áti í nágrannaríkjunum Frakklandi og Belgíu. Auk þess sem íbúar í mið Asíu, Kína og Suður-Ameríku kunna vel að meta það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert