Milljón krefst afsagnar Rajoys

Mariano Rajoy sést hér mæta á tveggja daga ráðstefnu Evrópuleiðtoga …
Mariano Rajoy sést hér mæta á tveggja daga ráðstefnu Evrópuleiðtoga sem hófst í höfuðstöðvum ESB í Brussel í Belgíu í dag. AFP

Ein milljón Spánverja hefur sett nafn sitt á undirskriftalista á netinu þar sem þess er krafist að Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, segi af sér vegna spillingar.

Mikil reiði ríkir eftir að skjöl voru birt sem gefa í skyn að Rajoy og aðrir félagar í Lýðfylkingunni hafi þegið ólöglegar greiðslur frá flokknum.

„Ég krefst þess að Mariano Rajoy forsætisráðherra segi af sér þegar í stað og að boðað verði til skyndikosninga, einnig aðrir félagar í Lýðfylkingunni sem nefndir eru í skjölunum og starfa í opinberri þjónustu eða innan flokksins,“ segir í undirskriftalistanum.

Síðdegist í dag var rétt rúmlega ein milljón búin að skrifa undir.

Stjórnarandstæðingar og mótmælendur hafa krafist þess að Rajoy segi af sér en ráðherrann hefur ekki orðið við því ákalli.

Spænska dagblaðið El Pais birti myndir af handskrifuðu yfirliti fyrir greiðslum til Rajoys á forsíðu á fimmtudag. Samkvæmt blaðinu er um að ræða óopinbert bókhald Luis Barcenas, fyrrverandi gjaldkera Lýðfylkingarinnar (PP), frá 1990 til 2008. Þar sjást framlög, flest frá verktökum, í sérstakan sjóð með dagsetningum og upplýsingum um uppruna. Þá segir hvaða flokksfélagar fengu greitt og hvað mikið. Samkvæmt því fékk Rajoy 25.500 evrur (4,4 milljónir króna) á ári frá 1997 þegar hann var varaformaður flokksins til 2008. Í blaðinu sagði að hefðu greiðslurnar verið taldar fram hefðu þær verið löglegar.

Rajoy sagði upplýsingar blaðsins rangar og sagðist skuldbinda sjálfan sig og flokkinn allan til fyllsta gagnsæis. Hann hét því að birta yfirlit yfir tekjur sínar og eigur án þess að draga nokkuð undan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert