Flugdólgar eru sívaxandi vandamál

Ein af flugvélum Aeroflot.
Ein af flugvélum Aeroflot. www.aeroflot.ru

Rauðþrútinn maður öskrar og rífur í hár flugþjóns, hristir hann til og hrindir honum. Farþegi reynir að koma flugþjóninum til hjálpar, en þá ræðst maðurinn á hann og nefbrýtur hann. Þetta er einungis eitt af mörg hundruð atvikum, sem átt hafa sér stað um borð í rússneskum flugvélum að undanförnu.

Framangreint atvik var tekið upp á farsíma og hefur farið víða á netinu. Ofneysla áfengis er algeng um borð í rússneskum farþegaflugvélum og nú vilja flugfélögin grípa til aðgerða. Þau vilja meina farþegum, sem hafa hegðað sér svona, um flugfar.

Fá úrræði til að taka á dólgum

Stjórnvöld ræða nú leiðir til að taka á flugdólgum, þannig að hegðun af þessu tagi varði við lög og geti leitt til fangelsisvistar. Eins og staðan er núna, þá hafa áhafnir flugvéla fá úrræði til að taka á ólátum um borð eða að hindra farþega í að neyta ótæpilegs magns áfengis. 

Igor Barinov, þingmaður í neðri deild rússneska þingsins, sagði við umræður um málið á þingi að hann hefði sjálfur lent í því að þurfa að beita valdi þegar hann aðstoðaði áhöfn við að hemja ofurölvi farþega um borð í rússneskri flugvél á leið frá Þýskalandi. Viðkomandi farþegi hafði þá verið búinn að drekka heila flösku af sterku áfengi. „Hegðun, sem varðar við lög á jörðu niðri, ætti einnig að gera það um borð í flugvél,“ segir Barinov.

1.821 flugdólgur á svörtum lista

Dæmin eru fjölmörg. Um síðustu helgi þurfti rússnesk flugvél á leið frá Moskvu til Taílands að lenda í Úsbekistan eftir að nýgift hjón í brúðkaupsferð fóru að slást.

Vitaly Savelyev, framkvæmdastjóri rússneska flugfélagsins Aeroflot, segir á Twitter-síðu fyrirtækisins að alls sé 1.821 flugdólgur á svokölluðum svarta lista félagsins. Hann segir að réttast væri að flugfélögin deildu með sér þessum upplýsingum og að háar sektir ættu að vera við ólátum um borð í flugvélum.

Reynt hefur verið að fást við vandann með ýmsum hætti. Til dæmis lagði samgöngumálaráðuneyti Rússlands til að farþegar fengju ekki að taka sitt eigið áfengi um borð. Því var hafnað af flugfélögunum og bent á að það væri ekki einungis drukkið fólk sem væri með ólæti.

Um borð í einni af flugvélum rússnesla flugfélagsins Aeroflot.
Um borð í einni af flugvélum rússnesla flugfélagsins Aeroflot. www.aeroflot.ru
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert