Geturðu ekki bara drepist?

Friðrik Tryggvason

„Ég vona að þér verði nauðgað.“ „Þú átt bágt, dreptu þig.“ Tólf konur sem taka þátt í opinberri umræðu í Svíþjóð eru búnar að fá nóg af hótunum sem þessum sem þeim berast á netinu. Þær vöktu athygli á þessu í fréttaþættinum Uppdrag granskning sem sýndur var á SVT, sænska ríkissjónvarpinu í fyrradag.

Þátturinn bar yfirskriftina „Karlar sem nethata konur“ og þar sögðu konurnar frá þeim tölvupóstum og símtölum sem þeim berast og athugasemdum sem skrifaðar eru um þær á netinu eftir að þær hafa tjáð sig á opinberum vettvangi, ekki síst um jafnrétti kynjanna og kvenfyrirlitningu. 

Þessir tölvupóstar, símtöl og athugasemdir voru ekki bara frá körlum, heldur líka frá konum, en þær eru í miklum minnihluta.

Mun sýna þér að ég meina það sem ég segi

„Þú er mella og munt bara lifa í tvær vikur til viðbótar og ég mun koma til að sýna þér að ég meina það sem ég segi. Þú ert svo ljót að það er með ólíkindum að þú skulir hafa fengið vinnu í sjónvarpi.“ Svona hljóða skilaboð sem þáttastjórnandanum Jenny Alversjö bárust nýlega. 

Ekki eru þau skilaboð, sem útvarpskonunni Titti Schultz hafa borist, fallegri. „Ég get ekki hlustað á þína ljótu rödd. Það sem þú þarfnast er að vera barin sundur og saman með hafnaboltakylfu. Geturðu ekki bara drepist?  Einhvern tímann munum við koma og standa fyrir framan dyrnar hjá þér hóran þín. Það verður skemmtileg nótt.“

Sumir skrifa undir fölskum nöfnum

Ábyrgð samskiptamiðla á því efni sem birtist á síðum slíkra vefja virðist ekki vera á hreinu og það sama gildir um þá fjölmiðla sem bjóða upp á að athugasemdir séu gerðar við fréttir þeirra. 

Margar athugasemdanna eru skrifaðar í gegnum Facebook, en þegar þáttastjórnendurnir reyndu að hafa upp á þeim sem þær skrifuðu kom í ljós að í mörgum tilvikum var um að ræða falskar síður, þar sem röng nöfn voru gefin upp. Þó tókst að ná tali af nokkrum þeirra karla sem hlut eiga að máli. 

„Hún pirrar mig, svo ég pirra hana til baka,“ var svar eins þeirra þegar hann var spurður að því hvers vegna hann hefði hótað fjölmiðlakonu skelfilegum misþyrmingum.

Hringt var í annan karlmann, sem hafði hótað einni kvennanna lífláti og skrifað heimilisfang hennar á opna vefsíðu þar sem hann hvatti aðra til að gera henni mein. „Það var ekki skynsamlegt að gefa upplýsingar um heimilisfangið,“ sagði maðurinn og sagðist hafa fjarlægt þessi skrif sín af vefsíðunni.

Þáttastjórnandinn spurði hann hvaða áhrif hann teldi að þessi hegðun hefði haft á konuna sem hún beindist gegn. „Ég held að hún hafi orðið reið og liðið illa. En það var ekki ætlunin,“ svaraði maðurinn.

Þetta er bara Facebook

Annar, sem haft var samband við vegna hótana í garð kvenna á netinu, sagðist ekki muna eftir að hafa hagað sér á þennan hátt. Þegar hótunin var rifjuð upp fyrir honum sagðist hann ekki hafa meint það sem hann sagði, líklega hefði hann verið undir áhrifum.

Enn annar, sem hótaði konu á Facebook, var spurður að því hvort hann hefði látið sömu ummæli falla augliti til auglitis við viðkomandi konu. Svarið var: „Nei. En þetta er bara Facebook“.

Hóta börnum og fjölskyldu kvennanna

Hótanir um nauðganir og ofbeldi, jafnvel morðhótanir, eru eins og rauður þráður í gegnum skilaboðin sem konurnar í þættinum greindu frá. Þá eru skilaboð á borð við: „Hvað heldurðu að þú sért helvítis kerlingin þín,“ algeng og sömuleiðis orð eins og „Femínistahóra“. Líka er algengt að fjölskyldum kvennanna, sérstaklega börnum þeirra, sé hótað misþyrmingum. „Ég vona að þér og börnunum þínum verði nauðgað,“ er orðalag einna skilaboðanna.

Sumar kvennanna hafa í kjölfarið gert ýmsar ráðstafanir í lífi sínu og á heimilum vegna ótta um að hótununum verði framfylgt. 

Hótað vegna gagnrýni á stuttermabol

Í  þættinum var einnig fjallað um þau viðbrögð sem hin 21 árs gamla Julia fékk eftir að hún skrifaði athugasemd á Facebook-síðu H&M verslunarkeðjunnar þar sem hún gagnrýndi að þar væri seldur stuttermabolur með mynd af dæmdum kynferðisbrotamanni. Juliu óraði ekki fyrir viðbrögðunum. Um 3000 athugasemdir voru skrifaðar við innlegg hennar, þar á meðal þessar: „Haltu kjafti. Ég vona að þér verði nauðgað. Vertu svo væn að skjóta þig.“

Einn af þáttastjórnendunum hringdi í einn mannanna sem hótuðu Júlíu. „Ég vona að henni verði nauðgað fyrir þau orð sem hún hefur látið falla,“ sagði maðurinn í samtalinu. Spurður að því hvaða áhrif hann teldi að hótanir sem þessar hefðu á þá sem fyrir þeim verða sagðist hann telja að þau væru óveruleg.  „Það eru svo margir aðrir sem skrifa svipaða hluti og ég. Hún er algjörlega úti að aka, hún er heimsk.“

Þáttastjórnandinn spurði hann þá að því hvort þessar skoðanir hans á Júlíu væru ástæða til að hóta henni. „Ég skrifaði þetta í hita leiksins. Ég varð reiður.“

Hér má sjá þáttinn, en hann verður aðgengilegur á vefsíðu SVT þar til í lok júní.

Viðtal mbl.is frá 6.1. 2013 þar sem rætt var við Þórlaugu Ágústsdóttur stjórnmálafræðing um ábyrg samskipti á netinu.

Skjámynd af vefsíðu þáttarins Uppdrag granskning sem sýndur er á …
Skjámynd af vefsíðu þáttarins Uppdrag granskning sem sýndur er á sænska ríkissjónvarpinu, SVT.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka