Leiðtogar Evrópusambandsins náðu í dag samkomulagi um ramma fyrir fjárlög sambandsins á árunum 2014-2020. BBC segir að samkomulagið feli í sér að útgjöld ESB lækki og verði um 908 milljarðar evra eða um 1% af heildarframleiðslu ESB-ríkjanna.
Samkomulagið náðist eftir maraþonfund í Brussel. Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í dag að það hefði verið þessi virði að bíða eftir þessari niðurstöðu.
Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa þrýst fast á um að útgjöld ESB yrðu lækkuð og hafa í því sambandi bent á að þess sé krafist að ESB-ríkin skeri niður útgjöld heima fyrir.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði að þessi niðurstaða væri „góð fyrir Bretland.“ Hann sagði að í fyrsta skipti hefðu leiðtogar ESB náð samkomulagi um að lækka útgjöld sambandsins, en útgjöldin hefðu frá upphafi sambandsins alltaf hækkað milli ára.
Lönd í sunnanverðri álfunni, m.a. Frakkland og Ítalía, eru andvíg því að skorið verði mikið niður í útgjöldum ESB, en vilja að fjárlögunum verði breytt þannig að meira fé verði notað í fjárfestingar sem taldar eru líklegar til að skapa störf og draga úr atvinnuleysi.
Reynt var að ná samkomulagi um fjárlögin á leiðtogafundi ESB í nóvember en það tókst ekki. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vildi fyrst að framlög aðildarríkjanna yrðu hækkuð um 5%, eða í 1,04 billjónir evra, en Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, lagði til á fundinum í nóvember að framlögin yrðu alls 973 milljarðar evra. Niðurstaðan virðist hafa orðið sú að útgjöldin yrðu nær 900 milljörðum evra, eða um 1% af heildarframleiðslu ESB-ríkjanna.
Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, hefur sagt að það sé tilbúið að hafna samkomulagi leiðtoganna ef gengið verði of langt í niðurskurði. Nokkrir áhrifamiklir þingmenn hafa varað leiðtogana við því að samþykkja fjárlög sem myndu grafa undan hagvexti og tilraunum til að fjölga störfum.
Stærstu útgjaldaliðir Evrópusambandsins eru landbúnaðarstefnan og uppbyggingarsjóðir sem eiga að draga úr efnahagslegum og félagslegum mun milli svæða sambandsins með því að bæta hag þeirra svæða sem eru verst sett. Meðal þingmanna ríkja, sem njóta góðs af greiðslunum, er mikil andstaða við tillögur um að minnka þessi útgjöld.
Fréttaskýrendur segja athyglisvert að í Þýskaland, sem leggur mikla áherslu á að Bretland verði áfram aðili að ESB, hafi stutt Breta í þessu máli og þar með tekið aðra afstöðu en Frakkar. Þjóðverjar og Frakkar hafa að jafnaði staðið saman í öllum stærri ákvörðunum innan ESB.