John Brennan, sem Barack Obama hefur útnefnt sem næsta yfirmann leyniþjónustunnar CIA, varði notkun Bandaríkjahers á ómönnuðum flugvélum í skýrslugjöf hjá öldungadeild þingsins í gærkvöldi. Hann vék sér einnig undan því að tilgreina hvort hann teldi kaffæringar sem yfirheyrsluaðferð vera pyntingar.
Bandaríkjaher hefur sent um 350 ómannaðar flugvélar yfir Pakistan frá árinu 2004, mest í forsetatíð Obama.
Brennan sagði að Bandaríkin grípi ekki til slíkra vopna nema sem úrslitakostar og gæti þess vandlega að stefna þeim ekki gegn almennum borgurum. Tilefni þess að Brennan var kallaður fyrir þingmannanefndina er trúnaðargögn sem lekið var til þingmanna um beitingu ómannaðra flugvéla gegn Bandaríkjamönnum sem vinni með Al-Qaeda.
Brennan, sem er 57 ára, er helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta í baráttunni gegn hryðjuverkum og var hátt settur fulltrúi CIA í forsetatíð George W. Bush. Þegar hann hóf málflutning sinn í gærkvöld var hann ítrekað truflaður af mótmælendum og varð það til þess að hlé var gert á skýrslugjöfinni. Einn mótmælenda hélt á skilti sem á stóð „Brennan = flugvéladráp“.
Aðspurður um beiting svo nefndrar vatnsbrettaaðferðar við yfirheyrslu grunaðra hryðjuverkamanna sagði Brennan að slíkt væri „ámælisvert og ætti aldrei að endurtaka“ en hann neitaði hins vegar ítrekað að segja hvort það gæti talist pyntingar.
„Ég tjáði kollegum mínum mína persónulega skoðun og mótmæli við þessu en ég reyndi ekki að stöðva þetta vegna þess að þetta var eitthvað sem verið var að gera í annarri deild [CIA] sem tilheyrði öðrum yfirmönnum,“ sagði Brennan.
Þá sagði hann að fullyrt hafi verið við sig hjá CIA í forsetatíð Bush að kaffæringar og aðrar harkalegar yfirheyrsluaðferðir gætu kallað fram „dýrmætar upplýsingar“. Hins vegar, eftir að hafa lesið 300 blaðsíðna útdrátt úr 6000 blaðsíðna skýrslu um yfirheyrsluaðferðir CIA þá sé hann „ekki lengur viss um hver sannleikurinn er“.
Að sögn BBC gefur ekkert til kynna að öldungadeildarnefndin muni setja sig upp á móti útnefningu Obama á Brennan sem yfirmanns CIA.