William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í viðtali við breska götublaðið The Sun í dag að Argentínumenn gætu aldrei kúgað Breta til þess að láta Falklandseyjar af hendi. Hegðun Argentínumanna í deilunni styrkti einungis íbúa eyjanna í vilja sínum að tilheyra áfram Bretlandi.
Hector Timerman, utanríkisráðherra Argentínu, lét þau ummæli falla á dögunum að eyjarnar myndu tilheyra Argentínu innan tuttugu ára. Hague sagði þau ummæli vera hugaróra. „Þá á aldrei að verðlauna ógnandi hegðun í alþjóðamálum,“ sagði Hague og bætti við að bresk búseta á eyjunum væri nærri því 200 ára gömul og að íbúarnir vildu vera breskir ríkisborgarar áfram. Hague gaf til kynna að Cristina Kirchner, forseti Argentínu, vildi nota Falklandseyjadeiluna til þess að dreifa athyglinni frá innanríkisvandamálum sínum.
Allsherjaratkvæðagreiðsla verður haldin á Falklandseyjum í byrjun mars þar sem eyjaskeggjar verða spurðir hvort að þeir vilja tilheyra Bretlandi áfram.