Refur réðst á ungbarn

Litla barnið með miklar umbúðir á höndinni.
Litla barnið með miklar umbúðir á höndinni. Skjáskot af Telegraph

Breska lögreglan segir að refur hafi ráðist á fjögurra vikna gamlan dreng á heimili hans í Bromley, sem er úthverfi í suðausturhluta Lundúna. Litli drengurinn var fluttur á slysadeild en hann hlaut áverka á hendi.

Lögreglan segir að árásin hafi átt sér stað sl. miðvikudag, en fyrst var greint frá henni í gær.

Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna, segir að þetta hafi verið hræðileg árás. Hann tekur aftur á móti fram að slíkir atburðir heyri til algjörra undantekninga en „við verðum að gera meira til að takast á við refi í borgarlandinu, sem er vaxandi vandamál“.

Lögreglan segir að rannsókn málsins standi yfir.

Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins segir að móðir drengsins hafi verið heima hjá sér þegar hún heyrði hræðilegt öskur. Hún hljóp til sonar síns en þá sá hún að refurinn var búinn að draga drenginn úr barnarúminu og niður á gólf. Þá var dýrið búið að læsa tönnunum í aðra hönd drengsins.

Móðirin hafi verið í áfalli en hún hafi gert allt sem hún gat til að losa höndina úr kjafti refsins. Hann gafst að lokum upp en þá var ljóst að barnið hafði hlotið alvarlega áverka. Talið er að barnið hafi misst hluta af fingri en að læknum á St. Thomas-sjúkrahúsinu hafi tekist að sauma hann aftur á drenginn í aðgerð sem stóð yfir í þrjár klukkustundir.

Borgarstjórinn segir að hugur sinn sé hjá drengnum og fjölskyldu hans.

„Þeir virðast vera krúttlegir og rómantíkskir en í raun eru refir einnig plága og ógn, sérstaklega í borgunum okkar,“ sagði borgarstjórinn.

Víða í Evrópu má sjá refi í borgum. Þessi sást …
Víða í Evrópu má sjá refi í borgum. Þessi sást nýverið á gangi í Berlín, höfuðborg Þýskalands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert