Deilt um hrossið

Hrossakjötið sem fannst í hamborgurum og tilbúnum réttum í Bretlandi hefur vakið upp deilur þvert á landamæri. Blandast ráðherrar og matvælaeftirlit inn í deilurnar auk fyrirtækjanna sem komu að framleiðslunni. Er sagan af hrossakjötinu farin að minna á söguna um Litlu gulu hænuna þar sem allir vísa ábyrgðinni á einhvern annan.

Forsætisráðherra Rúmeníu, Victor Ponta, sagði á blaðamannafundi í dag að rúmensk fyrirtæki, sem liggja undir ámæli vegna blöndunar á hrossakjöti saman við nautakjöt, hafi ekki brotið neitt af sér. 

Um er að ræða tvö rúmensk sláturhús sem eru sökuð um að hafa selt evrópsku matvælafyrirtækjunum hrossakjöt sem nautakjöt.

Ponta segir að staðfest hafi verið að sláturhúsin hafi ekki brotið evrópskar reglur né venjur í framleiðslunni. Ekkert bendi til þess að kjötið hafi verið vitlaust merkt og undir þetta tekur landbúnaðarráðherra Rúmeníu, Daniel Constantin, samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar.

Samkvæmt Ponta var franska matvælafyrirtækið Spanghero, sem framleiddi fyrir franska fyrirtækið Comigel sem síðan seldi Findus tilbúna rétti, ekki í beinu sambandi við rúmensku fyrirtækin. Hvetur hann yfirvöld í Evrópu til þess að finna hvar rót svindlsins liggi og hver eigi sök á máli. Rúmenar geti ekki samþykkt að vera álitnir sökudólgar í málinu, segir Ponta.

Líkt og rakið hefur verið á mbl.is kom í ljós í síðustu viku að lítið fór fyrir nautakjöti í lasagne sem selt var undir merkjum sænska matvælafyrirtækisins Findus. Reyndist hluti af framleiðslunni einungis innihalda hrossakjöt þrátt fyrir að merkingar sögðu að um nautakjöt væri að ræða.

Franska fyrirtækið Comigel framleiddi réttina fyrir Findus. Þegar rétt innihald kom í ljós sögðu forsvarsmenn Comigel að Spanghero hafi framleitt réttina. Forsvarsmenn Spanghero brugðist ókvæða við og sökuðu rúmensk sláturhús um að bera ábyrgð þar sem kjötið hafi komið frá þeim í gegnum milliliði á Kýpur og Hollandi. Forsætisráðherra og landbúnaðarráðherra Rúmeníu hafa nú komið sláturhúsunum til varnar og enn því óljóst hver ber ábyrgðina á að hrossakjöt breyttist í nautakjöt á leið frá skepnu í maga neytenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert