Ekkert lát á hrossakjötshneykslinu

Lasanja frá Findus.
Lasanja frá Findus. AFP

Fulltrúar kjötframleiðenda og neytendasamtaka munu eiga fund með matvæla-og landbúnaðarráðherrum Frakklands í dag þar sem rædd verða viðbrögð við hrossakjötshneykslinu sem engan endi virðist ætla að taka.

Nokkrar tegundir af tilbúnum matvælum frá fyrirtækjunum Findus og Comigel voru fjarlægðar úr hillum matvöruverslana í Bretlandi, Frakklandi, Svíþjóð og víðar eftir að í ljós kom að fyrirtækin notuðu hrosskjöt í ýmsa tilbúna rétti í stað nautakjöts, líkt og segir í innihaldslýsingu á pakkningunum. Kjötið hefur verið rakið til Rúmeníu. Findus fékk kjötið frá Comigel, sem keypti það frá fyrirtæki sem heitir Spanghero. 

Meðal þeirra rétta sem um ræðir eru lasanja, pastaréttir og bökur.

Bæði framleiðendur og dreifiaðilar fullyrða að þeir hafi verið blekktir og fjölda málsókna hefur þegar verið hótað.

Innflutningsbann kemur ekki til greina

Owen Paterson, matvælaráðherra Bretlands, segir bann á innflutningi kjöts frá öðrum ESB-löndum ekki koma til greina. Fyrir það fyrsta er Bretum er ekki heimilt að banna innflutning á kjöti frá öðru Evrópusambandsríki og hann segir slíkar aðgerðir bera vott um múgæsingu. „Svona geðþóttaákvarðanir gera ekkert gagn,“ sagði Owen í viðtali á Sky-fréttastöðinni í gær. „En ef í ljós kemur að þetta snýst ekki eingöngu um svik, heldur hafi heilsu manna verið ógnað á einhvern hátt, þá munum við ekki hika við að grípa til aðgerða.“

Viðurlög þurfa að vera ströng

Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, sagði í gær að einhver yrði að svara til saka fyrir þetta „andstyggilega og viðbjóðslega athæfi“. 

„Það eru augljóslega einhverjir sem hafa hagnast á þessu og það þurfa að vera ströng viðurlög,“ sagði Fabian í viðtali á frönsku sjónvarpsstöðinni BFMTV í gær.

Slóð kjötsins var rakin frá Frakklandi til Rúmeníu í gegnum Kýpur og Holland. Yfirvöld í Rúmeníu hafa greint frá því að opinber rannsókn muni fara fram þar í landi. Forseti landsins, Traian Basescu, segist óttast að leiði rannsóknin í ljós að rúmenskir kjötheildsalar beri ábyrgðina, þá muni það hafa slæm áhrif á orðspor Rúmeníu næstu árin.

„Við erum fórnarlömb“

Vörur frá Findus eru seldar víða um heim, meðal annars hér á landi. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast ætla að höfða mál í Frakklandi. Það sama segja stjórnendur Comigel. „Við erum fórnarlömb og það er augljóst að vandamálið liggur hvorki hjá Findus né Comigel,“ segir Erick Lehagre, forstjóri Comigel, í samtali við AFP-fréttastofuna. „Þetta skaðar fyrirtækið verulega og við munum fara fram á bætur.“

Findus fékk kjötið frá Comigel, sem fékk það frá fyrirtæki …
Findus fékk kjötið frá Comigel, sem fékk það frá fyrirtæki sem heitir Spanghero. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka