Páfinn segir af sér

Benedikt XVI páfi ætlar að láta af embættinu í lok mánaðar samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins. Talsmaður páfa, Federico Lombardi, staðfestir þetta í samtali við AFP-fréttastofuna. Mun hann láta af embætti klukkan 20 (klukkan 19 að íslenskum tíma) hinn 28. febrúar nk. Verður Benedikt páfi fyrstur til þess að láta af embætti páfa í margar aldir en nánast alltaf gegnir páfi starfinu til dauðadags.

Benedikt XVI (sem er 85 ára að aldri) tók við embætti páfa í apríl 2005 við andlát Jóhannesar Páls II páfa og er einn sá elsti til þess að taka við embættinu eða 78 ára að aldri. Hann segist láta af störfum sökum aldurs. Hann hafi ekki lengur heilsu til að gegna starfinu.

Benedikt XVI er þýskur og heitir réttu nafni Joseph Ratzinger. Hann er númer 265 í röð páfa hinnar kaþólsku kirkju en alls er rúmlega milljarður jarðarbúa í kaþólsku kirkjunni.

Bæði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og François Hollande, forseti Frakklands, segja ákvörðun páfans virðingarverða en fjölmiðlar um allan heim greina frá ákvörðun páfans sem markar tímamót í sögu kaþólsku kirkjunnar.

Ratzinger er níundi Þjóðverjinn sem gegnir embætti páfa. Hann er sagður orðheppinn og heillandi í viðkynningu og talar nokkur tungumál reiprennandi. Hann var einn nánasti samverkamaður og vinur Jóhannesar Páls II og þótt fræðimaðurinn þýski væri ólíkur hinum alþýðlega Pólverja voru þeir sagðir skoðanabræður í öllu sem máli skipti. Ratzinger var oft kallaður hægri hönd páfa sem gerði hann árið 1981 að yfirmanni stjórnardeildar trúarkenningarinnar, valdamikillar stofnunar í Páfagarði.

Benedikt XVI
Benedikt XVI AFP
Benedikt XVI páfi
Benedikt XVI páfi AFP
AFP
AFP
Benedikt XVI
Benedikt XVI AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka