Reynt að losa um 90 milljarða neyðaraðstoð

Frá Palestínu.
Frá Palestínu. AFP

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vinnur nú að því að losa um 700 milljónir dala (um 90 milljarðar kr.) sem á að veita í neyðaraðstoð til handa Palestínumönnum. Bandaríkjaþing verður að afgreiða málið en þar hefur það setið fast.

Victoria Nuland, talsmaður Kerrys, segir að ráðherrann sé þeirrar skoðunar að nú sé tímabært að yfirvöld á Palestínu fái þessa aðstoð.

Þá segir hún að utanríkisráðuneytið starfi nú með Bandaríkjaþingi að því að losa féð enda sé málefnið brýnt.

Á síðasta fjárlagaári Bandaríkjanna, sem lauk í október sl., voru 495 milljónir dala lagðar til hliðar sem áttu að renna til palestínskra yfirvalda. Í síðustu viku var Bandaríkjaþingi tilkynnt að til stæði að verja 200 milljónum dala til viðbótar á þessu ári.

Féð er eyrnamerkt ákveðnum verkefnum í fjárlögum palestínsku heimastjórnarinnar. Þau eiga m.a. að fara í öryggismál og í rekstrarkostnað stjórnvalda.

Bandaríkjastjórn er nú þegar búin að veita Palestínumönnum 100 milljónir dala í aðstoð, en féð mátti aðeins nota í löggæslumál og í baráttunni gegn fíkniefnum.

Palestínska heimastjórnin hefur ekki staðið frammi fyrir verra efnahagsástandi í áraraðir. Það má að hluta rekja til þess að önnur ríki hafa ekki staðið við loforð um að veita Palestínumönnum fjárhagsaðstoð. 

Ástandið versnaði til muna eftir að Mahmud Abbas, leiðtoga Palestínu, tókst að fá allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja ályktun um að Palestína fengi stöðu áheyrnarríkis án aðildar hjá samtökunum.

Ísraelar mótmæltu því harðlega, líkt og Bandaríkin, og í framhaldinu ákváðu ísraelsk stjórnvöld að hætta að standa skil á mánaðarlegum skatttekjum til Palestínumanna sem Ísraelar innheimta fyrir hönd palestínsku heimastjórnarinnar.

Ísraelar millifærðu aftur á móti 100 milljónirnar í lok janúar.

John Kerry tók nýverið við sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
John Kerry tók nýverið við sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert