Bandaríski sérsveitarmaðurinn sem skaut Osama bin Laden, fyrrverandi leiðtoga al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, til bana, ræðir atvikið í viðtali við bandarískt tímarit. Þar segir hann frá því þegar hann skaut bin Laden þremur skotum og fjárhagsvandræðum sínum eftir að lét af hermennsku, en hann er nú atvinnulaus.
Ekki er greint frá nafni mannsins í viðtalinu en fram kemur hvaða hlutverki hann gengdi í aðgerðum Bandaríkjahers í maí árið 2011. Í viðtalinu, sem birtist í bandaríska tímaritinu Esquire, kemur einnig fram að hann hafi miklar áhyggjur af öryggi fjölskyldu sinnar.
„Hann virkaði ráðvilltur. Þá var hann mun hærri en ég átti von á,“ sagði hann um Osama bin Laden.
Bin Laden var í felum í húsi í Abbottabad í Pakistan. Í viðtalinu kemur fram að sérsveitarmennirnir hafi fundið hann á þriðju hæð hússins og þá hélt bin Laden um axlir yngstu eiginkonu sinnar og ýtti henni í áttina að sérsveitarmönnunum. Þá segir maðurinn að hriðskotariffill af gerðinni AK-47 hafi verið skammt undan.
„Ég vissi ekki hvort hún var klædd í vesti [sprengjuvesti] og hvort verið væri að ýta henni svo þau yrðu bæði gerð að píslarvottum. Skammt frá honum er byssa. Hann er ógn. Ég verð að skjóta hann í höfuðið svo hann geti ekki sprengt sjálfan sig í loft upp,“ segir sérsveitarmaðurinn.
„Á þessari sekúndu skaut ég hann, tvisvar sinnum í ennið. Bap! Bap! Annað skotið hæfði hann þegar hann var að falla niður. Hann hné niður á gólfið fyrir framan rúmið sitt og þá skaut ég hann aftur á sama stað,“ segir hann.
„Hann var dauður. Hreyfðist ekki. Tungan lafði út.“
Í viðtalinu er sérsveitarmaðurinn aðeins kallaður „Skyttan“ og í því er fjallað um þá erfiðleika sem hann stendur fyrir í dag. Hann sé hetjan óþekkta sem eigi engan lífeyri, sé ekki sjúkratryggður og þá njóti fjölskyldan hans ekki sérstakrar verndar.
Viðtalið ber yfirskriftina „The Man Who Killed Osama bin Laden...is Screwed“, sem útleggja mætti á íslensku sem „Maðurinn sem drap Osama bin Laden...er búinn að vera“.
Viðtalið kemur í kjölfar bókar sem annar sérsveitarmaður, Matt Bissonnette, sendi frá sér í fyrra, en hann tók einnig þátt í aðgerðinni gegn bin Laden í Pakistan. Bók hans bar titilinn No Easy Deal og reitti hún marga embættismenn innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins til reiði, en þeir halda því fram að Bissonnette hafi heitið því fjalla ekki opinberlega um trúnaðarupplýsingar.
Í Esquire eru fyrri frásagnir staðfestar sem segja frá því að aðrir sérsveitarmenn hafi skotið lík bin Ladens margsinnis eftir að hann féll til jarðar.
Í viðtalinu segir skyttan að atvikið hafi aðeins tekið um 15 sekúndur. Menn hafi hins vegar orðið skelfingu lostnir þegar menn komust að því að Black Hawk herþyrla hefði brotlent á lóðinni við húsið.
„Við eigum aldrei eftir að komast héðan,“ sagði skyttan. „Ég hélt að við myndum þurfa að stela bílum og keyra til Íslambad. Því hinn valkosturinn var að vera á staðnum og bíða eftir pakistanska hernum. Þá varð ég áhyggjufullur.“
Þegar allir voru svo komnir á herstöð í Jalalabad í Afganistan þá sýndi skyttan kvenkyns starfsmanni bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), sem er nú orðin fræg í kjölfar kvikmyndarinnar Zero Dark Thirty, lík hryðjuverkaleiðtogans.
„Við litum niður og ég spurði: „Er þetta þinn maður?“ Hún grét.“
„Þá tók ég skothylkið úr byssunni minni og gaf henni það sem minjagrip. Það voru 27 byssukúlur eftir. „Ég vona að þú hafir pláss fyrir þetta í bakpokanum þínum.“ Þetta var í síðasta sinn sem ég sá hana,“ segir skyttan í viðtalinu.