Vændi eins og hvert annað starf

Danskar vændiskonur og -menn ættu að hafa sömu réttindi og annað fólk á vinnumarkaði. Þau ættu að fá veikindaleyfi og atvinnuleysisbætur og ættu að fá lífeyri til jafns við aðra launþega. Þetta er skoðun rúmlega helmings dönsku þjóðarinnar, samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var á vegum dagblaðsins Politiken og sjónvarpsstöðvarinnar TV2.

Þar sögðust 56% aðspurðra telja að þeir sem störfuðu við vændi ættu að njóta sömu réttinda og eru á almennum vinnumarkaði.

Eitt af stefnumálum ríkisstjórnar Helle Thorning-Schmidt var að banna kaup á vændi, en nú hefur verið fallið frá þeim fyrirætlunum. Rasmus Horn Langhoff, talsmaður Jafnaðarmannaflokksins, flokks Thorning-Schmidt, er afar andvígur því að vændi verði lagt til jafns við önnur störf. 

„Eigum við þá að senda atvinnulausa í starfskynningu á vændishús? Eiga miðstöðvar fyrir atvinnuleitendur að þjálfa fólk til að vinna við vændi?“ spyr Langhoff í samtali við Politiken.

Í sama streng tekur Venstre. Fatma Øktem, talsmaður flokksins, segir að flokksmenn geti ekki skilgreint vændi eins og hverja aðra starfsgrein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert