Konan sem skildi hvað páfi var að segja

Það eru ekki margir sem tala og skilja latínu, en latínukunnátta kom að góðum notum þegar Benedikt XVI. páfi tilkynnti á blaðamannafundi á mánudagsmorgun að hann ætlaði að segja af sér embætti. Það var ítalska blaðakonan, Giovanna Chirri, sem fyrst áttaði sig á því hvað var að gerast og færði heiminum þessi merku tíðindi.

Páfi talaði latínu þegar hann kynnti þá ákvörðun sína að segja af sér sem páfi. Á blaðamannafundinum voru fimm blaðamenn, Ítali, Mexíkani, tveir Frakkar og Japani. Þeirra verkefni var að sinna blaðamannafundum í Vatíkaninu. Latínukunnátta blaðamannanna er misgóð, en Giovanna Chirri áttaði sig strax á hvað var að gerast. Hún hafði lesið bókina sem páfi gaf út á síðasta ári, en þar ýjar hann að því að hann kunni að láta af embætti. Hún segist hins vegar ekki hafa trúað því að hann myndi stíga þetta skref.

Ekki hafði verið gefið til kynna fyrir blaðamannafundinn að von væri á stórtíðindum. Fjölmiðlar um allan heim höfðu því ekki fyrir því að senda blaðamenn á fundinn. Eina óvenjulega sem blaðamennirnir, sem mættu á fundinn, tóku eftir var að honum var sjónvarpað.

Chirri segist hafa titrað þegar hún áttaði sig á hvað var að gerast. Hún hafi einbeitt sér að því að skrifa á fartölvuna. Fyrsta fréttin sem hún skrifaði hljóðaði svona: „Páfinn hefur ákveðið að yfirgefa páfastól.“

Flestir eru sammála um að páfi hafi komið heiminum á óvart með afsögn sinni. Margir hrósa honum fyrir hugrekki. Þetta geti ekki hafa verið auðveld ákvörðun, en hún hafi líklega verið nauðsynleg.

Frétt BBC um Chirri
Benedikt páfi.
Benedikt páfi. AFP
Giovanna Chirri hefur skrifað fréttir um það sem gerist i …
Giovanna Chirri hefur skrifað fréttir um það sem gerist i Vatikaninu frá árinu 1994.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert