Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, mun flytja stefnuræðu sína í nótt að íslenskum tíma. Embættismenn í Hvíta húsinu segja að forsetinn muni m.a. ræða um leiðir til að blása lífi í efnhagslíf landsins. Þá er talið að hann muni greina frá ákvörðun sinni um að fækka hermönnum um helming í Afganistan.
Talið er að forsetinn muni ræða um leiðir til að aðstoða fjölskyldur í landinu, en enn eru milljónir Bandaríkjamanna án atvinnu.
Ræðan verður sýnd í beinni sjónvarpsútsendingu og er búist við að milljónir manna muni fylgjast með. Þá er talið að Obama muni ræða um viðkvæm málefni á borð við innflytjendamál og byssulöggjöf.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að fréttaskýrendur telji að Obama muni kynna stefnu sína til næstu fjögurra ára. Ávarpið verður flutt í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og hefst það kl. 21 að staðartíma (kl. 2 í nótt að íslenskum tíma).