Öryggisráð SÞ heldur neyðarfund vegna N-Kóreu

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna heldur nú neyðarfund í New York vegna kjarnorkutilrauna stjórnvalda í Norður-Kóreu. Það gerðu þau þrátt fyrir viðvaranir alþjóðasamfélagsins.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ, segir að tilraunin hafi verið skýrt og alvarlegt brot á ályktunum SÞ og ögrun sem stuðli að miklum óstöðugleika á svæðinu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Þetta er þriðja kjarnorkutilraun N-Kóreumanna og er þetta öflugasta sprengjan sem þeir hafa sprengt.

Stjórnvöld í N-Kóreu segja að þetta séu viðbrögð þeirra við fjandsamlegu viðmóti Bandaríkjastjórnar. Þá segja þau að það komi til greina að grípa til mun umfangsmeiri aðgerða næst.

Kjarnorkueftirlitsmenn í Vínarborg í Austurríki segja að kjarnorkusprengjan, sem var sprengd neðanjarðar, hafi verið tvöfalt öflugri en sú sem N-Kórea sprengdi síðast, en það var árið 2009. N-kóresk stjórnvöld segja aftur á móti að nú hafi þeir notað minni sprengju.

Reynist það rétt telja sérfræðingar mögulegt að yfirvöld í N-Kóreu séu nú einu skref nær því að smíða sprengihleðslu sem er nægilega smá svo hún passi á eldflaug.

Eftir að N-Kórea skaut eldflaug á loft í desember sl. samþykktu SÞ að herða refsiaðgerðir gegn ríkinu. Þá fordæmdu SÞ eldflaugaskotið en þær segja að þarna hafi N-Kórea verið að gera tilraunir með eldflaugatækni sem hefur verið bönnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert