Benedikt XVI páfi, sem í gær tilkynnti að hann myndi segja af sér páfadómi þann 28. febrúar næstkomandi, mun eftir það setjast að í klaustri innan múra Vatikansins.
Klaustrið heitir Mater Ecclesiae. Það er eina klaustrið í Vatikaninu og var byggt árið 1992 að ósk Jóhannesar Páls páfa II sem sagðist vilja byggja athvarf fyrir þá sem vildu helga líf sitt íhugun. Þarna eru frægir rósagarðar og ekki er talið ólíklegt að Benedikt XVI, sem er þekktur fyrir ást sína á náttúrunni og umhverfinu, muni sinna þar garðyrkju.
Klaustrið verður endurnýjað til að hæfa páfa og í millitíðinni mun hann hafa aðsetur í sumarhöll páfa, í Gandolfo kastala skammt frá Róm.
Búist er við því að nýr páfi verði kjörinn fyrir páska.
„Ég efast um að hann eigi eftir að haga sér eins og einsetumaður,“ segir Federico Lombardi, talsmaður Vatikansins. „Hann hefur oft sagt að hann vilji verja elliárunum við skriftir og lærdóm og ég á von á því að það muni hann gera í klaustrinu.“