N.-Kóreumenn sprengdu kjarnorkusprengju í nótt

Stjórnvöld í Norður-Kóreu staðfestu í morgun að þau hefðu sprengt kjarnorkusprengju neðanjarðar í nótt. Að þeirra sögn tókst sprengingin, sem þau segja vera tilraunasprengingu, eins og best verður á kosið. Nágrannaríkið Suður-Kórea hefur þegar fordæmt sprenginguna og segir hana óásættanlega ógnun við öryggi og frið á Kóreuskaga og í Norðaustur-Asíu.

Skjálftamælar víða um heim sýndu jarðhræringar skammt frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu um klukkan þrjú í nótt og barst yfirlýsing frá ríkisfréttastofu Norður-Kóreu skömmu síðar þar sem sprengingin var staðfest.

Minni og léttari en þær fyrri

„Þriðja kjarnorkusprengjutilraun okkar hefur nú verið framkvæmd,“ segir í yfirlýsingunni, en þetta er þriðja sprenging Norður-Kóreumanna á sjö árum. „Þessi háþróaða tilraun var gerð með meiri sprengikrafti en hinar fyrri og sprengjan var bæði minni og léttari.“

Það, að sprengjan hafi verið bæði minni og léttari, hefur þegar vakið ugg víða í alþjóðasamfélaginu, vegna þess að það þykir benda til þess að Norður-Kóreumenn séu nú með í höndunum sprengju sem auðveldlega megi koma fyrir í langdrægri eldflaug. Utanríkisráðuneyti Suður-Kóreu segir sprengjuna hafa búið yfir sprengimætti á bilinu 6-7 kílótonn.

„Kjarnorkutilraunin er hluti aðgerða til að standa vörð um öryggi þjóðarinnar og sjálfstæði hennar gagnvart gegndarlausum fjandskap Bandaríkjanna sem hafa brotið á rétti okkar til að skjóta gervihnetti á loft,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Engin viðbrögð hafa enn borist frá bandarískum stjórnvöldum, en leyniþjónusta landsins kannar nú málið.

Fordæmt víða

Utanríkisráðherra Japans hefur fordæmt sprenginguna og segir hana brot á samþykktum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hið sama hafa rússnesk stjórnvöld gert og einnig Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.  

Viðbragða Kínverja er beðið með nokkurri eftirvæntingu, en þeir hafa fram að þessu verið einn fárra bandamanna Norður-Kóreumanna á alþjóðavettvangi. Kínversk stjórnvöld höfðu varað Norður-Kóreumenn við því að sprengja sprengjuna.

Boðað hefur verið til neyðarfundar Öryggisráðs SÞ síðar í dag þar sem málefni Norður-Kóreu verða rædd.

Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu. AFP
Skjálftamælar víða um heim sýndu jarðhræringar skammt frá Pyongyang, höfuðborg …
Skjálftamælar víða um heim sýndu jarðhræringar skammt frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu um klukkan þrjú í nótt. AFP
Norður-kóreskir hermenn.
Norður-kóreskir hermenn. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert