Verði Skotland sjálfstætt ríki og segi skilið við breska konungdæmið ætti það að halda í pundið sem gjaldmiðil. Þetta er álit sérfræðinganefndar sem skoska heimastjórnin fékk til þess að fara yfir kosti landsins í gjaldmiðlamálum komi til þess að meirihluti verði fyrir því í fyrirhuguðu þjóðaratkvæði á næsta ári að Skotar lýsi yfir sjálfstæði.
Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að ýmsir hafi haldið því fram að Skotar yrðu að taka upp evruna sem gjaldmiðil sinn ef þeir lýstu yfir sjálfstæði en aðrir hafi talað fyrir því að setja á fót nýjan gjaldmiðil.
Skýrsla sérfræðinganna, en í þeim hópi eru meðal annars Nóbelsverðlaunahafarnir Joseph Stiglitz og Jim Mirrlees, var birt í gær en þar segir að efnahagur Skotlands sé nógu sterkur og nægjanlega aðlagaður öðrum hlutum Bretlands til þess að ekki væri þörf á öðrum gjaldmiðli.
Þannig er lagt til að Englandsbanki verði áfram seðlabanki Skotlands og að sett yrði á laggirnar nefnd sem hefði það verkefni að koma á formlegu myntbandalagi.