Fundu hrossalyf í kjöti

Slátrari sést hér skera hrossakjöt
Slátrari sést hér skera hrossakjöt AFP

Hrossa­lyfið phenyl­butazo­ne fannst í hræj­um af hross­um sem jafn­vel var flutt var frá Bretlandi til Frakk­lands til þess að nota í mat­væla­fram­leiðslu. Lyfið get­ur reynst fólki ban­vænt en það er afar sjald­gæft. Þetta kom fram í máli land­búnaðarráðherra Bret­lands á þingi í dag.

Að sögn land­búnaðarráðherra Bret­lands, Dav­id Heath, fannst lyfið hins veg­ar ekki í sýn­um úr til­bún­um rétt­um frá Find­us.

Mat­væla­eft­ir­lit Bret­lands, Food Stand­ards Agency (FSA), tók sýni úr 206 hræj­um hrossa sem var slátrað í Bretlandi. Var rann­sókn­inni beint að því hvort verkjalyfið, sem einnig geng­ur und­ir heit­inu bute, væri að finna í kjöt­inu. Lyfið get­ur haft al­var­leg áhrif á blóðrás­ar­kerfið í fólki en slíkt er mjög fátítt.

Að sögn Heath hafa leif­ar lyfs­ins fund­ist í átta skrokk­um. Kjöt af þrem­ur þeirra var vænt­an­lega selt í mat­væla­fram­leiðslu í Frakklandi. Öruggt er að kjöt af fimm þeirra fór ekki í mat­væla­fram­leiðslu.

FSA vinn­ur að því í sam­starfi við frönsk yf­ir­völd að innkalla kjöt frá mat­væla­fram­leiðend­un­um.

Mat­vöru­versl­an­ir í Evr­ópu hafa tekið fleiri millj­ón­ir fros­inna máltíða úr sölu eft­ir að í ljós kom að hrossa­kjöt hafði verið notað í stað nauta­kjöts í lasagne frá Find­us.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka