Fundu hrossalyf í kjöti

Slátrari sést hér skera hrossakjöt
Slátrari sést hér skera hrossakjöt AFP

Hrossalyfið phenylbutazone fannst í hræjum af hrossum sem jafnvel var flutt var frá Bretlandi til Frakklands til þess að nota í matvælaframleiðslu. Lyfið getur reynst fólki banvænt en það er afar sjaldgæft. Þetta kom fram í máli landbúnaðarráðherra Bretlands á þingi í dag.

Að sögn landbúnaðarráðherra Bretlands, David Heath, fannst lyfið hins vegar ekki í sýnum úr tilbúnum réttum frá Findus.

Matvælaeftirlit Bretlands, Food Standards Agency (FSA), tók sýni úr 206 hræjum hrossa sem var slátrað í Bretlandi. Var rannsókninni beint að því hvort verkjalyfið, sem einnig gengur undir heitinu bute, væri að finna í kjötinu. Lyfið getur haft alvarleg áhrif á blóðrásarkerfið í fólki en slíkt er mjög fátítt.

Að sögn Heath hafa leifar lyfsins fundist í átta skrokkum. Kjöt af þremur þeirra var væntanlega selt í matvælaframleiðslu í Frakklandi. Öruggt er að kjöt af fimm þeirra fór ekki í matvælaframleiðslu.

FSA vinnur að því í samstarfi við frönsk yfirvöld að innkalla kjöt frá matvælaframleiðendunum.

Matvöruverslanir í Evrópu hafa tekið fleiri milljónir frosinna máltíða úr sölu eftir að í ljós kom að hrossakjöt hafði verið notað í stað nautakjöts í lasagne frá Findus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka