Suður-afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius, drap unnustu sína fyrir mistök í morgun á heimili sínu í Pretoríu í Suður-Afríku, að sögn blaðsins Beeld.
Hermt er að Pistorius hafi haldið innbrotsþjóf vera á ferð í íbúðinni og hleypt af byssu. Að sögn lögreglunnar, sem hefur hlauparann í haldi, hæfðu skot hans höfuð stúlkunnar og hendur. Lögregla segist hafa fundið 9 mm skammbyssu á vettvangi. Lík konunnar, sem var 26 ára gömul, hafi verið flutt burt.
Pistorius öðlaðist heimsfrægð sem fyrsti íþróttamaðurinn til að taka þátt í ólympíuhlaupi þrátt fyrir að vanta báða fætur, en hann hleypur á gervifótum frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Hann fór heim með tvö gull af Ólympíumóti fatlaðra í London í sumar.
Fram kemur á BBC að Suður-Afríka sé eitt af þeim löndum heims þar sem glæpatíðni er hvað hæst í heiminum og margir hafi skotvopn á heimilum sínum til að verjast innbrotsþjófum.