Vill knýja Frakka með lögum til að kjósa

Atkvæði greitt í kosningum í Frakklandi.
Atkvæði greitt í kosningum í Frakklandi.

Kjósendur sem mæta ekki á kjörstað á kjördegi eiga yfir höfði sér að verða sektaðir, samkvæmt frumvarpi sem nú er til meðferðar í franska þinginu í París. Flutningsmaður þess segir kosningaréttinn „ekki bara réttindi heldur skyldu“.

Frumvarp hægrimannsins Thierry Lazaro felur í sér skyldu allra ríkisborgara að kjósa og 15 evru sekt við því að láta það ógert. Og hunsi menn skyldu sína öðru sinni hækkar sektin í 45 evrur.

Að sögn franska blaðsins Le Figaro er þetta 13 árið í röð sem frumvarp af þessu tagi er lagt fyrir franska þingið. Öll hafa þau komið frá hægrimönnum utan árið 2011 er sósíalistanum Laurent Fabius, núverandi utanríkisráðherra, bauð við met þátttökuleysi í héraðakosningum í mars 2011 og vildi skylda menn til kosninga með lögum.

Lazaro segir lagaboðið einustu leiðina til að auka kjörsókn sem hefur verið einstaklega mikil í nær öll skipti sem gengið hefur verið til kosninga á öldinni.

Andstæðingar frumvarpsins segja að það muni ekki svara kostnaði að eltast við þá sem ekki kjósa og sektin því misheppnuð tekjuöflun. Það væri fyrst og fremst hlutskipti stjórnmálamanna að örva kjósendur til kosninga með málafylgju sinni og frammistöðu. Verkin yrðu að tala ef meirihluta landsmanna ætti að finnast verðugt að greiða atkvæði.

Kosningaskylda er í nokkrum löndum Evrópusambandsins, svo sem Belgíu, Lúxemborg og Liechtenstein. Einnig í Ástralíu, Egyptalandi, Tyrklandi, Perú, Bólivíu og Argentínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert