Matvörukeðjan Rema 1000 í Noregi hefur fjarlægt úr verslunum sínum um 25 vörutegundir vegna gruns um að í þeim sé hrossakjöt. Um er að ræða vörur eins og paté, pitsur, kjötbollur, pylsur og fleiri unnar kjötvörur. Allar vörurnar voru merktar á þann veg að þær innihéldu nautakjöt.
Martina Rabsch, gæðastjóri hjá Rema 1000, segir í samtali við Aftenposten að ekki hafi fengist staðfest að lasanja innihéldi hrossakjöt. Það sé verið að rannsaka það.
Hrossakjöt hefur einnig fundist í frosnu lasanja í Noregi sem selt er undir vörumerkinu First Price. NorgesGruppen sendi frá sér yfirlýsingu í dag um þetta mál, en fyrirtækið rekur yfir 1.700 matvöruverslanir í Noregi.
Hrossakjötsmálið hefur einnig teygt anga sína til Danmerkur. Sláturhús á Jótlandi er grunað um að hafa blandað hrossakjöti í hakk og merkt það sem nautakjöt. Í bt.dk kemur fram að talið sé að kjötið hafi m.a. verið notað á pitsur.