Silvio Berlusconi er kominn á skrið. Ekki er nema vika í kosningar á Ítalíu og Berlusconi, sem hrökklaðist úr embætti við þannig aðstæður – Ítalía á barmi gjaldþrots og hann með réttarhöld yfir höfði sér vegna skattamála og kynlífshneykslis – að talið var að hann myndi aldrei eiga afturkvæmt í pólitík, saxar jafnt og þétt á forskot andstæðinganna.
Um miðjan janúar munaði 12 prósentustigum á hægra bandalagi Berlusconis og vinstra bandalagi Piers Luigis Bersanis. Fyrir viku var forskot Bersanis komið niður í fimm prósentustig. Vinstri menn höfðu tapað fjórum prósentustigum og hægri menn bætt þremur við sig.
Berlusconi, sem er 76 ára gamall, hefur stormað inn í kosningabaráttuna með loforðum. Hann byrjaði á að heita því að fasteignaskattur, sem Mario Monti forsætisráðherra lagði á íbúðir og einbýlishús, yrði lagður af. Auk þess myndi Berlusconi endurgreiða þann fasteignaskatt, sem þegar hefði verið innheimtur. Sjöundi hver Ítali fengi peninga beint í vasann.
Fleiri loforð hafa bæst við. Berlusconi ætlar að leggja niður vöruskatt og segir að þannig muni hann búa til fjórar milljónir starfa. Þá kveðst hann ætla að náða þá, sem hafa dregið undan skatti.
Það mun koma í ljós þegar talið verður upp úr kjörkössunum á Ítalíu hvort atlaga Berlusconis tekst. Skoðanakönnunin, sem áður var vitnað til, var sú síðasta fyrir kosningar. Bannað er með lögum á Ítalíu að gera skoðanakannanir síðustu tvær vikurnar áður en gengið er að kjörborðinu.
Endurkoma Berlusconis skýtur andstæðingum hans skelk í bringu. Monti, sem leitt hefur sérfræðingastjórn Ítalíu síðan síðla árs 2011, er nú í framboði. Hann segir að Evrópusambandið óttist að Berlusconi snúi aftur til valda og telji að það myndi hafa neikvæð áhrif á evruna. „Evrópusambandið óttast endurkomu hans vegna þess að það hefur fengið nóg af skortinum á aga í fjármálum og getuleysi til að taka ákvarðanir, sem hvort tveggja stefnir evrusvæðinu í hættu,“ sagði Monti.
Gianfranco Rotondi, sem var ráðherra í stjórn Berlusconis, kom sínum gamla yfirmanni til varnar: „Monti segir að ESB óttist endurkomu Berlusconis. Ég get fullvissað hann um að Ítalía óttast endurkomu Montis.“
Framboð Montis er í fjórða sæti með um 12% fylgi samkvæmt skoðanakönnunum.
Kannanirnar benda til að grínistinn Beppe Grillo sé í þriðja sæti með um 16% fylgi. Grillo er ólíkindatól, sem dregur til sín mikinn fjölda á kosningafundum. Fimm stjörnu hreyfing hans höfðar sérstaklega til ungs fólks og tekur einkum fylgi frá vinstri vængnum, en gerir öllum hefðbundnu flokkunum einhverja skráveifu.
Tilkynning Benedikts XVI. páfa um að hann hygðist segja af sér um mánaðamótin hefur yfirskyggt kosningabaráttuna. Segja greinendur að afsögn páfa, sem í síðustu opinberu messu sinni gerði hræsnina að umtalsefni, gæti jafnvel haft áhrif á útkomu kosninganna og stöðvað sókn Berlusconis, sem eitt sinn var í uppáhaldi í Páfagarði en féll úr náðinni vegna kynlífshneykslanna.
„Við munum fá minni fjölmiðlaathygli,“ sagði Berlusconi í viðtali um ákvörðunina og var óánægður með að missa sviðsljósið.
Sérfræðingar telja ólíklegt að Berlusconi sigri í kosningunum, en segja að fylgisaukning hans gæti torveldað myndun nógu öflugrar stjórnar til að knýja fram umbætur á krepputímum á Ítalíu.
„Hin augljósa hætta er að Lýðræðisflokkurinn [sem Bersani leiðir] og Monti fari í sömu sæng og stjórnin falli eftir ár eða sex mánuði,“ sagði James Walston, prófessor við Ameríska háskólann í Róm, við fréttastofuna AFP.
Sagan sýnir hins vegar að það er aldrei hægt að afskrifa Berlusconi.