Næstum þriðji hver Breti er hættur að borða tilbúna rétti eftir að hrossakjötshneykslið kom upp. Þetta sýnir skoðanakönnun sem gerð var fyrir bresku blöðin Sunday Mirror og Independent.
Samkvæmt könnuninni hafa 7% Breta ákveðið að hætta algerlega að borða kjöt eftir að þetta mál kom upp.
Staðfest er að í mörgum tilbúnum réttum sem seldir eru í matvörumörkuðum er að finna hrossakjöt þó að varan sé merkt sem nautakjöt. Hrossakjöt hefur einnig fundist í mötuneytum í skólum.
Í könnuninni kom fram verulegur stuðningur við að innflutningur á kjötvörum yrði bannaður þangað til búið væri að upplýsa um umfang vandans.
44% töldu að stjórnvöld í Bretlandi bæru ábyrgð á málinu, en 30% voru því ósammála.