Dutroux fær ekki reynslulausn

Belgískur dómstóll hefur hafnað beiðni barnaníðingsins Marc Dutroux um að fá lausn úr fangelsi en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa rænt og nauðgað sex stúlkum en fjórar þeirra létust. 

Dutroux hafði óskað eftir því að verða látinn laus úr fangelsi og settur í stofufangelsi með ökklaband. 

Meðal þeirra sem lögðust gegn lausn Dutroux var móðir hans, Jeannine Dutroux. Í frétt á vef BBC kemur fram að hún segist sannfærð um að sonur sinn muni brjóta af sér á nýjan leik verði hann látinn laus. Þetta er fyrsta skipti sem hún tjáir sig opinberlega um son sinn frá því hann var fangelsaður árið 2004.

Dutroux var handtekinn árið 1996 en samkvæmt belgískum lögum er hægt að láta fanga lausa, sem eru dæmdir í lífstíðarfangelsi, eftir að þeir hafa afplánað fimmtán ár ef ekki er talin stafa hætta af þeim. 

Eins og áður sagði eru fórnarlömb hans sex. Julie Lejeune og Melissa Russo átta ára en þær sultu báðar til bana. An Marchal, 17 ára, fannst grafin í garði Dutroux líkt og Eefje Lambrecks, nítján ára. Sabine Dardenne, tólf ára, og Laetitia Delhez, 14 ára, var bjargað úr kjallara níðingsins.

Mál Dutroux vakti gríðarlega reiði meðal almennings í Belgíu, ekki bara vegna eðlis glæpa hans heldur einnig mistaka í rannsókn lögreglunnar. Lögregla hafði leitað á heimili barnaníðingsins þar sem hann var með tvær átta ára gamlar stúlkur í haldi án þess að finna þær. Þær sultu síðar til bana. Þrátt fyrir að Dutroux hafi fyrst verið handtekinn árið 1995 fór málið ekki fyrir dóm fyrr en árið 2004.

Dutroux slapp jafnvel úr haldi lögreglu árið 1998 en náðist síðar. Meðal annars sagði dómsmálaráðherra Belgíu af sér og innanríkisráðherra vegna málsins.

Dutroux var loks dæmdur árið 2004 fyrir að hafa rænt og nauðgað sex stúlkum og myrt tvær þeirra.

Marc Dutroux
Marc Dutroux AFP
Luc Hennart dómari kynnti niðurstöðu dómsins í dag
Luc Hennart dómari kynnti niðurstöðu dómsins í dag AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert