Það eru ekki bara íslenskir hjúkrunarfræðingar sem flykkjast til Noregs. Undanfarin tvö ár hefur fjöldi þeirra dönsku hjúkrunarfræðinga sem fá starfsleyfi í Noregi margfaldast, enda er eftir töluverðu að slægjast, a.m.k. hvað varðar laun.
Árið 2010 fengu 186 danskir hjúkrunarfræðingar starfsleyfi í Noregi, tveimur árum síðar voru þeir 850. Mikill skortur er á hjúkrunarfræðingum í Noregi og þrátt fyrir góð kjör gengur illa að manna stöðurnar, samkvæmt frétt norska ríkissjónvarpsins NRK.
Danskir hjúkrunarfræðingar fá svokallaðan „byrjunarpakka“ þegar þeir skrifa undir samning um að starfa á heilbrigðisstofnunum í Stavanger, en pakkinn inniheldur 40.000 norskar krónur, jafnvirði rúmlega 930.000 íslenskra króna. Helmingurinn er greiddur út við undirritun samnings, afgangurinn eftir eitt ár í starfi. Og fyrir utan þetta eru launin nokkuð hærri en í Danmörku.