Einungis einn af hverjum þremur Bretum myndi greiða atkvæði með því að vera áfram í Evrópusambandinu samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið Harris Interactive gerði fyrir breska viðskiptablaðið Financial Times og birtar eru í dag.
Fram kemur í frétt blaðsins að 50% myndu greiða atkvæði með því að Bretland segði skilið við Evrópusambandið, 33% að þeir yrðu þar áfram innanborðs og 17% tóku ekki afstöðu til þess. Þá kemur einnig fram í niðurstöðunum að 50% breskra kjósenda sé ánægður með þá stefnu Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, að halda þjóðaratkvæði um veruna í sambandinu en gert er ráð fyrir að slík kosning fari fram árið 2017. Einungis 21% aðspurðra voru óánægðir með þá stefnu.
Skoðanakönnunin náði til 2.114 einstaklinga og var gerð 29. janúar til 6. febrúar.