Helstu líknarfélög Frakklands segjast reiðubúin að taka við tonnum af tilbúnum réttum sem settir hafa verið til hliðar, m.a. í stórmörkuðum, þar sem hrossakjöt hefur fundist í þeim þar sem eingöngu átti að vera nautakjöt.
Samtökin segja að það yrði ekkert annað en „hneyksli“ að farga svo miklu af fyrirtaks matvælum. Vilja þau að fá að dreifa þeim til snauðra skjólstæðinga sinna.
Hingað til hafa sex franskar stórverslanakeðjur innkallað eða áforma að innkalla þúsundir tilbúinna rétta, sem hita má í örbygljuofni, þar sem í þeim mun vera hrossakjöt í einhverju magni, þótt aðeins séu þeir merktir sem nautakjöt.
Líknarfélögin vilja ekki sjá þessi matvæli fara forgörðum. Þrjú slík sem gefa fátækum og öðrum þurfi matvæli - Restos du Coeur, Secours populaire og Banque Alimentaire - vilja fá þau til sín til dreifingar, svo fremi að heilsu fólks stafi engin hætta af þeim.
„Umfram allt má ekki fleygja þessum mat. Séu réttirnir hæfir til neyslu þá skulum við taka við þeim,“ sagði Secours Populaire við útvarpsstöðin Europe 1.
Yfirmaður Restos du coeur á Bretaníuskaganum, Philippe Le Mescam, var öllu ákveðnari í blaðinu Ouest France. „Það yrði hreint og klárt hneyksli að eyða öllum þessum mat ef rannsókn leiðir í ljós að þau séu ekki hættuleg.“