Sænskir embættismenn freista þess að komast til botns í meintu hvarfi um 9.000 hrossa árlega frá Svíþjóð. Sérfræðinga grunar að hestarnir séu seldir með ólögmætum hætti til kjötvinnsluhúsa sunnar í Evrópu.
Athuganir embættismanna í Suður-Svíþjóð og samtaka hrossabænda hafa leitt í ljós óútskýranlegt gat í tilkynningum um hrossadauða í landinu. Miðað við að 360.000 hross séu í landinu og meðalaldur hests sé 15 ár benda tölur til að um 20.000 hross ættu að drepast árlega, segir í blaðinu Svenska Dagbladet.
Svo er hins vegar ekki samkvæmt skýrslum þar sem aðeins eru skráð um 14.000 dauð hross. „Það vantar milli fjögur og níuþúsund hross á ári í þennan fjölda. Við höfum samt velt við öllum steinum í leit að þeim,“ segir talsmaður hrossabænda við blaðið.
Telja rannsakendur, að allt að 100.000 hross hafi gufað upp og horfið frá árinu 2000. Ein skýringin er sögð geta verið sú, að hrossin lifi einfaldlega lengur að jafnaði, að eigendur þeirra hafi heygt þá án leyfis og því ekki látið vita, eða - eins og margir telja - að dýrin hafi borið beinin í sláturhúsum utan Svíþjóðar. Yfirmaður dýraeftirlitsins á Skáni segir að tæpast væri hægt að tala um að eftirlit væri með flutningi dýra frá Svíþjóð.
Hann hélt því fram við blaðið, að fyrir hross í sænsku sláturhúsi fengjust um 2.000 krónur sænskar. Í Danmörku fengist tvöfalt meira, þrefalt hærri upphæð fengist í Belgíu og ítalskt sláturhús myndi greiða fjórum sinnum meira fyrir hrossið.