Vilja senda þýska hermenn til Malí

Þýsk herflutningavél af gerðinni Transall.
Þýsk herflutningavél af gerðinni Transall. Wikipedia

Þýsk stjórnvöld hafa ákveðið að senda allt að 330 hermenn til Malí meðal annars til þess að þjálfa þarlenda hermenn á vegum Evrópusambandsins vegna átaka við íslamista í landinu. Þýsku hermennirnir munu taka þátt í aðgerðum sem Frakkar hafa beitt sér fyrir í landinu.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.de að 180 þýskum hermönnum hafi þegar verið falið að taka þátt í verkefninu. Þar af muni 40 sjá um að þjálfa malíska hermenn og aðrir 40 verða sjúkrahússtarfsfólki til aðstoðar. Hinir eitt hundrað eiga að sjá um að tryggja aðgengi að hreinu vatni og orku. Þá er gert ráð fyrir að 150 hermenn til viðbótar aðstoði franska herinn við að tryggja nauðsynlegar samgönguleiðir.

Þýska þingið mun fjalla um málið á fundi sínum næstkomandi föstudag en Þjóðverjar hafa þegar sent tvær herflutningavélar til Malí af gerðinni Transall og sú þriðja er í viðbragðsstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert