Berlusconi boðar skattaendurgreiðslur

Andstæðingar Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra, eru æfir af reiði yfir kosningaloforðum ráðherrans fyrrverandi en hann lofar meðal annars að endurgreiða skatta komist hann til valda.

Á vef breska ríkisútvarpsins segir Pier Luigi Bersani, leiðtogi mið- og vinstri bandalagsins, loforð Berluscono bull á meðan annar frambjóðandi segir að Berlusconi sé að brjóta lög með loforðum sínum. Um er að ræða óvinsælan eignaskatt sem lagður var á undir stjórn Mario Monti.

Berlusconi hefur haldið þessu fram á kosningafundum en nú hefur hann sent bréf til kjósenda þar sem hann lofar endurgreiðslum og að þær verði settar inn á bankareikning viðkomandi. Bréfið er sent til milljóna heimila á Sikiley, Veneto, Campania og Lombardy en kosningar fara fram á Ítalíu á sunnudag.

Um er að ræða fasteignaskatt, 0,4% af virði fasteignar, sambærilegan þeim sem fasteignaeigendur greiða víða um Evrópu.

Silvio Berlusconi
Silvio Berlusconi AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert