Japanar láta Sea Shepherd ekki stöðva sig

Skip Sea Shepherd siglir á japanskt hvalveiðiskip undan strönd Suðurskautslandsins.
Skip Sea Shepherd siglir á japanskt hvalveiðiskip undan strönd Suðurskautslandsins. AFP

Japanar hafa heitið því að halda hvalveiðum sínum við Suðurskautið áfram þrátt fyrir tíða árekstra við hvalverndunarsamtökin Sea Shepherd, sem elta japönsku hvalveiðiskipin og hafa unnið á þeim skemmdir.

Japönsk stjórnvöld segja að bát Sea Shepherd hafi verið siglt á eitt hvalveiðiskipanna í gær. Sea Shepherd segja aftur á móti að hvalveiðimennirnir leggi sig í líma við að láta skip sín rekast á skip og báta samtakanna.

Ekkert umburðarlyndi

Aðgerðir Sea Shepherd við Suðurskautslandið nefnast Operation Zero Tolerance, eða „Aðgerðin ekkert umburðarlyndi“. Samtökin eru þar með fjögur skip, þyrlu og þrjár litlar ómannaðar njósnaflugvélar og alls eru um 100 manns við aðgerðirnar.

Paul Watson, stofnandi Sea Shepherd fullyrti í gær að Japanir hygðust láta af hvalveiðunum vegna aðgerða samtakanna og sagði við fréttamenn að japönsku hvalveiðiskipin væru að taka eldsneyti á þeim hafsvæðum þar sem slíkt væri bannað.  

Eftirlýstur af Interpol

Watson er eftirlýstur af alþjóðalögreglunni Interpol eftir að hann flúði úr stofufangelsi í Þýskalandi síðastliðið sumar. Hann er sakaður um að hafa ráðist á hákarlaveiðimann við Kostaríka fyrir tíu árum og Japanir vilja gjarnan hafa hendur í hári hans vegna eltingaleiks Sea Shepherd við japönsku hvalveiðimennina.

Hvalveiðitímabil Japana er stutt og einungis 18 dagar eru eftir af því. Um er að ræða vísindaveiðar, en hvalkjötið er nýtt til manneldis. Veiðarnar eru víða fordæmdar, til dæmis hefur Tony Burke, umhverfisráðherra Ástralíu, sagt þær „grimmilegar og ónauðsynlegar“ en hefur neitað beiðni Sea Shepherd um að senda skip á staðinn til að fylgjast með veiðunum.

Paul Watson, stofnandi Sea Shepherd.
Paul Watson, stofnandi Sea Shepherd. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka