Forsætisráðherra Póllands, Donald Tusk, lýsti því yfir fyrr í þessari viku að Pólverjar myndu ekki taka upp evruna sem gjaldmiðil sinn í fyrirsjáanlegri framtíð. Fram kemur á fréttavef bandaríska viðskiptablaðsins Wall Street Journal að ráðherrann hafi ekki tekið jafn afdráttarlaust til orða um málið áður.
Tusk sagði að ein hindrunin í þeim efnum væri skortur á pólitískum stuðningi í Póllandi við að breyta stjórnarskrá landsins en þar er kveðið á um að pólska zlotið sé gjaldmiðill þess. Margir stjórnmálamenn, ekki síst hægrimenn, séu andvígir því að taka upp evruna sem gjaldmiðil Póllands.
Fram kemur í fréttinni að Pólland hafi áður stefnt að upptöku evrunnar á síðasta ári en horfið hafi verið frá þeim fyrirætlunum, meðal annars vegna efnahagserfiðleikanna í heiminum. Pólsk stjórnvöld hafi ekki sett fram aðra tímasetningu síðan en erfiðleikar evrusvæðisins hafi dregið úr áhuga á upptöku evrunnar.
Tusk sagði ennfremur að áður en Pólverjar gætu tekið upp evruna þyrftu að eiga sér stað frekari umbætur á stjórnsýslu og efnahagsmálum Póllands. Hann varaði við því að á meðan Pólverjar væru ekki hluti af evrusvæðinu væru þeir á útjaðri Evrópusambandsins.