Viðvarandi samdráttur og fjárlagahalli á ESB-svæðinu

Spánverjar, Frakkar og Portúgalar hafa ekki minnkað umframeyðslu að samþykktu marki, að sögn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), sem kynnti í morgun nýjar efnahagshorfur sínar fyrir ESB- og evrusvæðið.

Þar kom fram að halli á ríkissjóði Spánar 2012 var 10,2% af vergri landsframleiðslu eða langt umfram skuldbindingar sem hljóðuðu upp á að hann yrði ekki umfram 6,3%. Hallinn mun verða langt yfir því marki fram á næsta ár,  2014.

Þá er framkvæmdastjórn ESB orðin sammála öðrum alþjóðastofnunum og viðurkennir að efnahagslegur samdráttur verði í evrulöndunum 17 í ár. Spár höfuðstöðvanna í Brussel hljóða upp á 0,3% samdrátt fyrir svæðið í heild, en í mörgum landanna verður hann enn meiri. Í síðustu spám sínum taldi ESB að 0,1% vöxtur yrði á evrusvæðinu 2013.

Er framkvæmdastjórnarmaðurinn Olli Reh skýrði frá niðurstöðum hagspárinnar sagði hann að þrátt fyrir að árið í heild yrði neikvætt væru horfur fyrir 0,7% hagvöxt á síðasta fjórðungi ársins.

Fram kom að framkvæmdastjórnin væri uggandi yfir stöðu mála í Portúgal en þar varð 3,2% samdráttur í fyrra og útlit fyrir 1,9% samdrátt í ár. Var samdrátturinn „óvænt“ meiri en talið hafði verið.

Flestir sem fást við hagspár  hafa verið að endurmeta spár sínar fyrir Evrópu og þá niður á við. Þannig sagðist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) í janúar búast við „vægum samdrætti“ 2013, eftir að hafa áður spáð hagvexti. Alþjóðabankinn breytti sömuleiðis spám sínum snemma í janúar niður á við.

Bankastjóri Seðlabanka Evrópu (ECB), Mario Draghi, syndir gegn straumnum og telur að hagvöxtur sýni sig á evrusvæðinu á seinni helmingi ársins.

Fyrr í vikunni sagðist þýski seðlabankinn telja að Þýskaland myndi komast hjá kreppu; hagvöxtur yrði þar í landi á ný, þegar á fyrsta fjórðungi ársins. Síðustu þrjá mánuðina 2012 skrapp þýska hagkerfið saman um 0,6%.


 

Flagsandi evrópufánar við höfuðstöðvar ESB í Brussel.
Flagsandi evrópufánar við höfuðstöðvar ESB í Brussel. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert