Palestínskur fangi sem lét lífið í ísraelsku fangelsi í gær dó í kjölfar pyntinga. Þetta fullyrti ráðherra fangelsismála í Palestínu í dag. Til átaka kom á Vesturbakkanum í dag vegna málsins auk þess sem þúsundir fanga í ísraelskum fangelsum eru í hungurverkfalli.
Ísraelsk stjórnvöld segja að fanginn, Arafat Jaradat, hafi dáið úr hjartaáfalli en þessu vísa palestínsk stjórnvöld á bug. Þau fullyrða að merki sjáist um pyntingar á líkama hans og andliti, en krufning sýni að hjartað hafi verið heilbrigt. „Þessar niðurstöður sanna að Ísraelsmenn drápu hann,“ sagði Issa Qaraqaa, ráðherra fangelsismála í Palestínu, á blaðamannafundi í dag.
Jaradat var þrítugur að aldri og fæddur og uppalinn á Vesturbakkanum. Hann var handtekinn á mánudaginn í síðustu viku fyrir meinta aðild hans að grjótkasti í nóvember 2012, sem varð til þess að ísraelskur landamæravörður særðist.
Palestínumenn segja að Jaradat hafi verið meðlimur í vopnaðri fylkingu Mahmuds Abbas forseta Palesínu, sk. al-Aqsa píslarvottum. Lík hans var flutt frá Ísrael til Palestínu í dag og verður hann borinn til grafar á morgun.
Talsmaður ísraelsku lögreglunnar vildi ekki tjá sig um niðurstöður krufningarinnar við AFP í dag og sagði málið enn í skoðun. Mikil reiði braust hins vegar út vegna dauða mannsins og fóru 4.000 fangar í hungurverkfall í ísraelskum fangelsum í dag.
Þá brutust út átök á Vesturbakkanum milli Palestínumanna og ísraleskra öryggissveita í Hebron, Ramallah, Nablus og Jenin í dag. Ísraelsk stjórnvöld krefjast þess að leiðtogar Palestínu stilli til friðar.