Leiðtogi hægrimanna á Kýpur, Nicos Anastasiades, fékk flest atkvæði í forsetakosningum sem fram fóru í eyríkinu í dag. Hann hét því eftir að sigurinn varð ljós í dag að tryggja að Kýpur fái björgunarpakka Evrópusambandsins hið fyrsta.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hét því sömuleiðis í dag að styðja hinn nýkjörna forseta í tilraunum hans til að bjarga ríkinu frá gjaldþroti.
Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í dag að Kýpverjar hefðu gefið Anastasiades sterkt umboð til að framfylgja áætlun hans um efnahagslegar umbætur og til að gera það sem þyrfti að gera til að tryggja stöðugleika í hagkerfi Kýpur.
„Ég hef fullvissað hann um það að hann geti reitt sig á stuðning framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að sigrast á þeim áskorunum sem fram undan eru,“ sagði Barroso í yfirlýsingu í dag.
Anastasiades fékk 57,5% atkvæða í þessari annarri umferð kosninganna og hafði þar með betur en keppinauturinn Stavros Malas sem naut stuðnings kommúnista í landinu.